Nýtt Helgafell - 31.12.1959, Page 36
166
HELGAFELL
efni, sem talin eru geta valdið krabbameini,
geta einnig valdið stökkbreytingum. Er það
athyglisvert, því að í krabbameinsfrumum er
einmitt mikil óregla á litþráðum. Eðli þess-
ara stökkbreytinga er nokkuð annað en þeirra,
sem myndast við geislun, því að það er eins og
efnin vinni á ákveðnum hlutum litþráðanna
en tilviljun ráði hins vegar, hvar geislarnir
falla á þræðina. Hér er um mjög merkilega
athugun að ræða, því að finnist fjöldi slíkra
sérverkandi efna er jafnvel unnt að ímynda
sér að einhverntíma verði hægt að beina þeim
að kynfrumum í ákveðnum litþræði. Það er
að segja. að fá vald á erfðabreytingunni, þann-
ig að unnt verði að segja fyrir um stökkbreyt-
inguna, og verði til dæmis unnt með ákveðnu
efni að breyta geni hins hvíta litar á litþræði
nr. 3 í ákveðinni lífveru i gen fyrir svörtum lit.
En þetta er ennþá aðeins framtíðardraumur.
Gerð genanna
Hér væri eðlilegt að ræða nokkuð um gerð
genanna og verkan þeirra, en nú verður að fara
fljótt yfir sögu. Með ýmsum efna og líffræði-
legum tilraunum hefur reynzt unnt að sýna
fram á, að litþræðirnir væru myndaðir úr
eggjahvítuefni og kjarnasýrum, sem eru flók-
in lífræn efnasambönd, og genin sjálf senni-
lega úr þeirri kjarnasýru, sem nefnd er des-
oxyribose-kjarnasýra og skammstöfuð er D.
N. A. Við rannsóknir á sýklum, sýklaætum
og veirum hefur verið unnt að sýna fram á,
að kjarnasýran er þessum lífverum og lífögn-
um nauðsynleg til vaxtar og viðkomu. Hún
er því til í smáum sem stórum verum, og í
henni virðist fólgin stjórn vaxtar og þroska
allra lifandi vera. Hún er og gædd merkileg-
um krafti sjálfseftirlíkingar. 1 tengslum við
eggjahvítuefni myndar hún sennilega langar
keðjur stórra sameinda, sem ef til vill eru
einmitt genin sjálf og hvert fyrir sig eftirlíkist
og tvöfaldast á hárnákvæman hátt, en efni-
viðurinn er fenginn úr öðrum lífrænum efnum
frumunnar. Enginn veit þó enn með vissu
hvernig þessari eftirlíkingu er farið, og enn
er lítið vitað um, hvernig genin verka við
myndun eiginleikanna. Er það ætlun margra,
að hvert um sig framkalli þau eggja-
hvítuefni, sem sé einskonar spegilmynd af
þeim sjálfum og munu þá vera fáar og ein-
faldar efnabreytingar til myndana ýmissa
hvata og þeirra eggjahvítuefna í blóði, er
valda séreinkennum þess, og nota má til þess
að skipa blóði í ákveðna flokka (þ. e. blóð-
flokka). En áhrifaleið genanna er oftast lengri
og flóknari en þetta, áður en lokamarkinu
er náð, og oftast þarf samspil margra gena
til þess að koma af stað ótal efnamyndun-
um og milliliðum svo að unnt sé að fram-
kalla endanlega sköpun hvers eiginleika. Oft
reynist eitt. þeirra gena ákvarðandi og falli
það burt eða breytist, hverfur eða breytist
eiginleikinn um leið.
Eins ber þess að geta, að ekki er endilega
öruggt að eiginleiki myndist þótt gen sé til
fyrir sköpun hans. Það þarf sem sagt ákveðið
umhverfi og ákveðinn efnivið, til þess að sér-
hvert gen geti hafið starfsemi sína. Sé það
ekki fyrir hendi, er hætt við, að eiginleikinn
geti ekki komið fram, því að hlutur verður
ekki smíðaður, ef efnið vantar í hann. Og enn
skal þess getið, að ekki er sennilegt, að genin
verki öll samtímis í fjölfruma lífveru, heldur
að eitt taki við af öðru, og sum gen hefji ekki
starfsemi sína fyrr en á vissu þroska- og ævi-
skeiði einstaklingsins.
Þannig gætir til dæmis ekki áhrifa þeirra
gena, sem valda skalla, fyrr en menn eru
búnir að ná vissum aldri, og ekki vaxa vængir
á fiðrildi fyrr en á púpustigi. En genin halda
áfram að verka og áhrif þeirra að móta eigin-
leikana, sem umhverfið sníður í stakk, allt
fram að dauða lífverunnar.
Erfðarannsóknir
Hér hefur verið reynt að rekja nokkra
meginþætti erfðafræðinnar, en þess ber að
geta, að öll þekking á erfðafræði er síðan hag-
nýtt við kynbætur jurta og dýra og henni
beitt við lækningar og líffræðirannsóknir á
dýrum og mönnum. Leitazt er við að bæta og
velja arfhreina stofna, auka kynfestu eða
framkalla kynhreysti, en vinza úr eiginleika,