Helgafell - 01.10.1946, Side 24
HALLDÓR HERMANNSSON:
Fyrstu íslenzku tímaritin
Mjór er mil^ils vísir, segir gamall íslenzkur málsháttur, og gæti hann
gjarnan verið einkunnarorð að sögu blaða og tímarita. Þótt þau væru fá og
smá í upphafi, eru þau nú orðin einn merkasti þátturinn í menningarlífi
nútímans. — í grein þessari verður þróun þeirra lýst nokkuð, að því er ísland
varðar, allt frá því er útgáfa íslenzkra tímarita hófst og til 1874, er þau
þáttaskil verða í sögu landsins, að það fær sérstaka stjórnarskrá.
Ástæður á íslandi fyrr á tímum voru sérlega óhagstæðar fyrir samvinnu
og félagsskap um bókmenntaleg efni og þá útgáfu tímarita. Landið var
alls staðar strjálbyggt. Samgöngur milli héraða fóru fram eftir illfærum veg-
um, sem fremur máttu heita götuslóðar eða troðningar, þar sem hestum
einum varð við komið, vagnar voru óþekktir, og um strandsiglingar dreymdi
menn ekki. Svo miklir voru samgönguerfiðleikar landsmanna, að vörur og
bréf, sem áttu að fara í aðrar byggðir landsins, urðu stundum að koma við
í Kaupmannahöfn, til þess að ná á ákvörðunarstað, því að þangað og þaðan
voru allar siglingar kaupskipa frá landinu og að. Reglulegar póstferðir milli
íslands og Danmerkur komust ekki á fyrr en 1786, og um langt skeið fór
póstskipið aðeins eina eða tvær ferðir á ári. Skömmu fyrir 1 780 voru fjórar
póstleiðir á landi ákveðnar, fyrir bréfapóst eingöngu, en þessum ákvæðum
var ekki framfylgt reglulega. Skipulegar póstgöngur er því naumast um að
ræða fyrr en á síðari hluta 19. aldar. í fyrstu póstreglunum eru ekki gerðar
ráðstafanir til flutnings á prentuðu máli Þá var enginn höfuðstaður til í
landinu, hvorki í fjárhagslegum né stjórnarfarslegum skilningi. Hinir æðstu
embættismenn, hvort heldur andlegrar eða veraldlegrar stéttar, voru búsettir
á víð og dreif um landið. Landstjóri var oftast danskur maður og sat á Bessa-
stöðum, en lögmenn báðir sátu á óðölum sínum, hvar á landinu sem þau
voru. Alþingi var enn háð á Þingvöllum, hálfsmánaðartíma á sumri hverju,
en var nú ekki lengur sótt af alþýðu manna, heldur embættismönnum ein-
um, og þeim, er þar áttu mál fyrir rétti. Ef nefna mætti einhver höfuðból
íslenzks menntalífs á þessum tímum, væri það helzt biskupssetrin, Skálholt
og Hólar. Á þeim báðum voru latínuskólar og dálítill bókakostur, þótt varla
yrðu þar talin bókasöfn. Á Hólum var eina prentsmiðjan í landinu í tvær
aldir, en þar sem hún var kirkjustjórninni háð, voru þar einkum prentaðar
guðsorðabækur. Ekki skorti þó á lærdómslöngun einstakra manna, en þeir