Tímarit Máls og menningar - 01.12.1973, Síða 61
Úr œviminningum
mundu eins og venjulega einhverjar dularfullar sálir hraða sér fram dalinn
og reyna að ná heiðinni á undan hríðinni. En þetta skifti ekki togum, hríð-
in var skollin á, á svipstundu var kominn moldbylur, ég horfði dálitla stund
út í sortann, það örlaði aðeins í hlaðvarpann, annars allt horfið. Þá lokaði
ég bænum en stóð enn um stund við dyrnar og hlustaði; stormhviðurnar
lögðust á bæjarþilið af meiri og meiri þunga, iðulaus stórhríðin hamaðist
á gamla torfbænum. Göngin voru full af myrkri og eins skemman sem ég
þurfti í gegnum til að taka til handa kúnni í töðutóftinni sem var áföst við
bæinn.
Þó ég væri myrkfælinn varð ég að sinna þessum verkum, ég þreifaði mig
eftir nálinni og leysti heyið og tróð því í poka, síðan fór ég inn göngin og
skildi pokann eftir við fjósdyrnar, en það var innangengt í fjósið, þar sem
nú stóð kýr á bási. Hinumegin í göngunum voru dyr að hlóðaeldhúsi og
búrkompu en baðstofan var þvert fyrir göngunum og skellihurð fyrir. Þeg-
ar inn í baðstofuna kom var þar bjart og notalegt, búið var að kveikja á
tíu-línu lampa og það var eldur í kabissunni.
í baðstofunni voru þrjú rúm, en lítið var gólfplássið, rúm alin milli rúma.
Súðin og suðurgaflinn voru þiljuð niður að rúmum, smágluggi var á þeim
stafni og sneri gegn suðri, á norðurgafli var moldarveggurinn ber, þar sem
stóð kabissan, moldargólf var í baðstofunni. Bóndinn sat á rúminu sínu,
hann var lasburða á veturna en kreppti fingur um prjóna. Ráðskonan sat
á rúminu á móti og spann. Mér varð litið á gluggann og sá að allar frost-
rósir sneru greinunum niður og það var auðséð á því hve hélan var orðiii
þykk, að frostið hafði aukizt.
Vonandi að enginn sé úti í þessu veðri og að allir hafi náð skepnunum í
hús, sagði gamla konan. Hún gafst upp við að spinna og það var farið að
spjalla og spá um veðrið, hvernig það hafði lagzt í þreyttar og slitnar taug-
ar, gengið smám saman hærra upp, þangað til stíflan brast. Og stórhríðin
sem geisaði úti, minnti á sig, baðstofan lág, með þykkum veggjum nötraði
undan átökunum. Ég settist á rúmið mitt og strauk smettið á kettinum sem
hringaði sig ofan á sænginni, en reis upp og teygði sig dálítið og lét svo
aftur fara vel um sig, tíkin lagðist hjá kabissunni og dró til sín ylinn. Innan
stundar fórum við svo með olíutýru í hendi, til að gefa kúnni og hreytla úr
henni dropann, hún var síðbær. Að því loknu gekk gamla konan fram að
krossa hæinn, síðan skammtaði hún kvöldmatinn, sem við borðuðum ævin-
lega af hnjám okkar, og var þá deginum lokið og hver háttaði í sitt rúm.
Á Gili var tíminn ekkert að flýta sér, hann rétt silaðist áfram og það var
267