Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Page 14
Svanur Kristjánsson:
Hugmyndir Marx um lýðræði
og sósíalisma
Karl Marx skrifaði mikið um stjórnmál og eftir hann liggja fjöldamörg verk.
Markmið mitt með þessari grein er ekki að setja fram heilaga túlkun á ritum
Marx, greinin er skrifuð til íhugunar um tengsl lýðræðis og sósíalisma í
verkum Marx.11
Fyrst mun ég reifa í stuttu máli hugmyndir frjálshyggjunnar um tengsl
einstaklinga og ríkisvalds. Með frjálshyggju á ég ekki við þá ósköp
auðvirðulegu peninga- og nauðhyggju sem menn hafa slegið um sig á
síðustu árum, heldur hefðbundnar frjálshyggjuhugmyndir um tengsl ein-
staklinga og ríkisvalds. Hugmyndir Marx mótuðust af gagnrýninni með-
höndlun hans á frjálshyggjunni. Menn geta því ekki vænst þess að öðlast
skilning á ritum Marx án þess að kunna eitthvað fyrir sér í henni. Að lokum
mun ég ræða hugmyndir Marx um baráttuleiðir.
Meginhugmyndir frjálshyggjunnar um tengsl einstaklinga og ríkisvalds
má taka saman á eftirfarandi hátt:
1) menn hafa bundist samtökum um að mynda yfirvald;
2) yfirvaldinu er veitt vald samkvæmt samningi við þegnana;
3) brjóti yfirvaldið samninginn hafa þegnarnir ekki aðeins rétt á að
breyta þessu yfirvaldi — gera byltingu — þeim ber raunar skylda til
þess.
Þessar hugmyndir frjálshyggjunnar koma skýrt fram í Sjálfstæðisyfir-
lýsingu Bandaríkjanna 1776, en á þeim tíma voru þær mjög byltingarkennd-
ar. Ríkjandi var sú hugmynd, að ríkisvaldið — oftast einvaldskonungur —
hefði þegið vald sitt frá æðri máttarvöldum, Guði almáttugum, og enginn
dauðlegur máttur megnaði eða dirfðist að skera á þau tengsl. Með
frjálshyggjunni er ríkisvaldið hins vegar gert veraldlegt — dauðlegt — og því
sjálfsagt og raunar skylt að breyta því, fari það út fyrir sín mörk.
Frjálshyggjumenn lögðu þessar hugmyndir til grundvallar er þeir hófu
síðan að skilgreina frelsið, þ. e. í hverju pólitískt frelsi manna væri fólgið.
Skilgreining þeirra á frelsinu var tvíþætt:
132