Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Side 14
Franz Kafka
JSX
Skýrsla handa akademíu
Háttvirtu herrar í Akademíunni!
Þið sýnið mér þann heiður að biðja mig að afhenda Akademíunni
skýrslu um apalíf mitt hérna áður fyrr.
Því miður get ég ekki orðið við þessum tilmælum á þann hátt sem
óskað er. Næstum því fimm ár skilja mig frá apatilverunni. Það er
kannski stuttur tími á mælikvarða almanaksins en óendanlega langur
að þeysa í gegnum hann eins og ég hef gert, stundum í fylgd ágætra
manna, ráðlegginga, fagnaðarláta og hljómsveita, en í rauninni samt
aleinn því að ávallt hélt fylgdarliðið sig fjarri sviðsbrúninni til að geta
fylgst vel með sýningunni. Eg hefði aldrei fengið þessu áorkað ef ég
hefði af þrákelkni haldið fast í uppruna minn, í minningarnar um
æsku mína. Afsal sérgæsku var einmitt æðsta boðorðið sem ég setti
mér; sem frjáls api gekkst ég undir þetta ok. Þetta varð til þess að
endurminningarnar tóku að sínu leyti að dyljast mér í stöðugt
auknum mæli. Hefði ég í fyrstu, ef menn hefðu viljað það, átt frjálsa
leið til baka um hið víða hlið sem himinhvolfið myndar yfir jörðinni,
þá lækkaði og þrengdist þetta hlið jafnt og þétt eftir því sem þróun
mín var pískuð áfram; mér leið orðið betur í mannheimi og ég hæfði
honum sífellt betur; storminn, sem blés á eftir mér úr fortíð minni,
lægði; núna er hann aðeins andvari sem kælir á mér hælana; og gatið í
fjarska, þaðan sem hann kemur og þaðan sem ég kom einu sinni, er
orðið svo þröngt að ég yrði að flá af mér feldinn til að komast í
gegnum það ef mér entust þá kraftar og vilji til að fara þangað aftur. I
hreinskilni sagt — ég nota gjarnan líkingar til að tjá þessa hluti — í
hreinskilni sagt: apatilvera ykkar sjálfra, herrar mínir, svo framarlega
sem þið eigið eitthvað slíkt að baki, getur ekki verið ykkur fjarlægari
en mitt apalíf er mér. En alla sem ganga á jörðu hér kitlar í hælinn:
litla simpansann jafnt sem hinn stóra Akkilles.
244