Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Side 22
Tímarit Máls og menningar
ljóma við mér réð ég mér sjálfur kennara, kom þeim fyrir í fimm
herbergjum í röð og lærði af öllum í einu með því að vera á sífelldum
hlaupum milli herbergjanna.
Þessar framfarir! Geislar þekkingarinnar þrýstust frá öllum hliðum
inn í vaknandi heila minn! Eg neita því ekki: það færði mér sælu-
kennd. En ég verð líka að játa: ég ofmet það ekki, það gerði ég ekki
einu sinni þá, hvað þá núna. Með erfiði, sem enginn hefur ennþá
leikið eftir á jörðinni, tókst mér að öðlast meðalmenntun Evrópu-
manns. Það væri út af fyrir sig kannski lítilvægt en er að því leyti
einhvers virði að það leysti mig úr búrinu og opnaði mér þessa
sérstöku undankomuleið, þessa undankomuleið mannkynsins. Til er
bráðsnjallt orðtak: að hlaupast undan merkjum; það hef ég gert, ég
hef hlaupist undan merkjum. Eg átti ekki um aðra leið að velja úr því
að ekki kom til greina að velja frelsið.
Þegar ég horfi yfir þróun mína og met takmark hennar og árangur
fram að þessu, þá hvorki kvarta ég né heldur er ég ánægður. Með
hendur í buxnavösunum, vínflöskuna á borðinu hvíli ég hálfliggjandi
og hálfsitjandi í ruggustólnum og horfi út um gluggann. Komi
einhver í heimsókn, tek ég á móti honum eins og vera ber. Umboðs-
maður minn situr í fremra herberginu; ef ég hringi kemur hann til
þess að heyra hvað ég hef að segja. A kvöldin er nær alltaf sýning og
ég hef náð árangri sem varla er hægt að bæta. Þegar ég kem seint heim
úr veislum, af vísindalegum fundum eða úr þægilegum samkvæmum
bíður mín lítil hálftamin apaynja af simpansakyni og með henni svala
ég hvötum mínum á apavísu. Á daginn kæri ég mig ekkert um að sjá
hana; í augnaráði hennar er nefnilega vitfirring hins ringlaða tamda
dýrs; það sér enginn nema ég og ég þoli það ekki.
Þegar á allt er litið hefur mér að minnsta kosti tekist það sem ég
ætlaði mér. Enginn getur sagt að það hafi ekki verið ómaksins vert.
Það skal tekið fram að ég kæri mig ekki um dóm nokkurs manns, ég
ætla mér aðeins að miðla fróðleik, ég er aðeins að skýra frá, einnig
ykkur, háttvirtu herrar í Akademíunni, hef ég aðeins gefið skýrslu.
252