Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Page 90
Tímarit Mdls og menningar
mannleg samskipti fá næstum ósjálfrátt á sig blæ smákaupmennsku sem
einkennist af ótta við að tapa því litla sem átt er í hinni andlegu
búðarholu. Og þessu fylgir varfærni, það að vilja hvorki leggja í stóra
áhættu né bjóða hættunni heim.
Einnig eru uppeldisaðferðir okkar ein orsökin. Vegna óljósra uppeld-
ishátta veður íslenskt barn uppi með frekju og ræður flestu á heimilinu
fram á unglingsár, oft vegna fjarveru foreldra við vinnu, en síðan er allur
vindur úr því þegar ungmennið hefði átt að taka eðlilegum þroska og fá
mótaða skapgerð. Síðan lufsast það einhvern veginn gegnum lífið sem
fullorðinn maður, úr afvötnun til endurhæfingar, úr meðferð í eilífa
kúra.
Með þessu móti fær þjóðlífið á sig blæ hins eilífa skopharmleiks sem á
fremur heima í eldhúsum, stofum og svefnherbergjum en í hinu stóra
leikhúsi menningarinnar.
Og síðast en ekki síst þorum við varla að vera það sem við erum, af
einskærum ótta við að þannig kunnum við að fá orð á okkur, og það illt
orð hjá þeim sem eru kannski miklu smærri en við sjálf.
Engu er líkara en við viljum fremur tóra en takast á við lífið. Það er
eins og við viljum fremur lifa á hnjánum en deyja upprétt.
Það er kannski ósköp mannlegt, en það er ekki stórmannlegt, eins og
tónskáldið sagði.
320