Tímarit Máls og menningar - 01.06.1992, Blaðsíða 40
Það var kalsaveður með fjúki og séra Gísli var eldrauður á eyrunum. Á
vinstri hönd við hann stóð Sveinbjörn kennari og hjá honum þrír berhöfð-
aðir menn; þeir sungu sálminn — Allt eins og blómstrið eina — Á
grafarbakkanum hinum megin við prestinn stóð Kolfinna Sveinsdóttir
ein síns liðs. Baka til við hana, á víð og dreif um klakabrýndar þúfnarúst-
imar, stóð svo sjálf líkfylgdin, svört eins og skógur. Sorgin lýsti af hverju
andliti og margir voru með grátviprur um munninn.
Þannig varð það hlutskipti Antons Karls Henningsens að vera lagður
til hinstu hvíldar í berangurslegum kirkjugarði Hólmanesþinga, óralangt
frá hinu sæla Sjálandi þar sem áar hans sváfu svefninum langa umkringd-
ir snotrum trjálundum og marmaraenglum. Hinsvegarþótti Hólmnesing-
um það nokkur bót í máli að hér lá hann við hliðina á konu sinni og dóttur.
Þegar búið var að moka ofan í gröfina tíndist fólk burt. En Kolfinna
stóð lengi ein eftir; hnípin kona með silfrað hár.
Daginn eftir útförina gekk Hannes í apótekinu á fund sýslumanns og
afhenti honum bréf. Bréf þetta hafði að geyma erfðaskrá Henningsens
apótekara, og samkvæmt henni var Kolfmna Sveinsdóttir réttur erfingi
allra eigna hans, fastra og lausra.
Þegar bú lyfsalans hafði verið gert upp; skuldir greiddar og eignir
seldar — nema hluti af innbúinu — kom í ljós að Henningsen apótekari
hafði ekki verið eins stöndugur og menn höfðu haldið, og allt og sumt
sem eftir stóð voru réttir og sléttir sex hundruð ríkisdalir. Þessir peningar
nægðu þó til þess að Kolfinna gat fest kaup á litlu húsi í þorpinu. Það var
kallað Jónshús og stóð í dálitlum hvammi uppi undir Mylluhöfða.
Kolfinna lifði mörg ár eftir þetta. Hún var eftirsótt til allra verka, en
þótti nokkuð sérsinna og undi sér best út af fyrir sig. Stöku sinnum komu
þó til hennar gestir; helst fólk innan úr Dölum. Hún hreiðraði vel um sig
í litla húsinu, og í stofunni voru ýmsir munir sem hún hafði fengið eftir
Henningsen; til að mynda skrifpúlt hans sem var úr mahóní, taffelúr með
glerhjálmi yfir og ruggustóll, sem hann sat oft í og reykti langa pípu.
Tvær myndir héngu á veggjunum, önnur af pilti og stúlku í litlum báti á
skógartjörn, og hin af pósti á rauðum jakka að opna garðshlið. Þá var
fataskápur, einnig úr mahóní, í honum geymdi Kolfinna kjólföt lyfsalans,
pípuhatt hans og staf.
Sagt var að á laugardögum færi hún með fötin út á snúrur, og stryki
þau þar hátt og lágt með litlum bursta.
J
38
TMM 1992:2