Tímarit Máls og menningar - 01.06.1992, Blaðsíða 53
— Það var alveg ágætt. Ég vil heldur ekki að neinn sjái mig héma.
Já, kannske ég sé loksins að verða endanlega... já, loksins. En mig langar
samt að sjá þig. Áttu ekki kerti?
Hann hugsaði sig um. Jú, hann átti kerti. Hann stóð upp og gekk að
útskomu homhillunni. Héma þurfti hann ekki ljós til að rata. Engillinn
var þarna og það skrjáfaði í gagnsæja bréfrnu, þegar hann tók hann ofan.
Hann var jólagjöf frá því fyrir þrem árum. Systir hans á Akranesi hafði
sent honum hann og honum hafði þótt hann svo fínn og skrautlegur að
ekki mætti nota hann nema sem stássgrip. En hann fann ekki til neins
saknaðar núna meðan hann leysti slaufuna af bréfinu — og svo átti hann
ekki annað kerti. Hann kveikti á eldspýtu.
— Hann er fallegur, sagði hún og starði eins og í leiðslu á ofurlitla
logann sem lifnaði hikandi á kolli engilsins og brá geislabaug yfir gyllt
hárið og broshýrt andlitið með tveimur bláum augum og smáum, rauðum
munni. — En jólin eru búin, sagði hún skyndilega. — Það er kominn
apríl.
— Þá er þetta bara svona... svona aprílengill, sagði hann. Hann vissi
ekki hvernig honum datt þetta í hug. Það kom ósjálfrátt.
— Já, aprílengill, auðvitað! sagði hún og þau fundu bæði í senn að
það var einmitt það sem hann var og ekkert athugavert við það lengur að
jólin voru liðin.
Kannske var ljósið ástæðan, kannske hátíðleikinn sem þessi rúmhelgi
engill stafaði frá sér, en þörfín fyrir að látast hlæja var horfín og þau sátu
þegjandi. Hann vék til höfðinu og horfði á vangasvip hennar í speglinum
án þess að hún sæi. Hún var orðin grennri en þegar hann sá hana síðast.
Samt var andlitið jafn slétt og í rauðleitum bjarmanum af ljósinu var eins
og það væri úr vaxi, eins og madonnuandlit. Aðeins sólgult hárið, þurrt
og ögn úfið eins og bómullarvisk og með dökkri rönd í skiptingunni
hægra megin, minnti á að hún var jarðnesk og reyndar ákaflega jarðnesk.
Um langan hálsinn bar hún silfurmen í leðurreim, það var nakinn
karlmaður sem hélt á spjóti.
— Ég er þreytt, sagði hún og lét fallast aftur á bak í stólnum og lokaði
augunum um leið. Hnakkinn á henni hvfldi efst á stólbakinu og hann
hugsaði um að hún hefði fallega höku. — Veistu að ég er að fara til
útlanda?
TMM 1992:2
51