Són - 01.01.2005, Page 77
LJÓÐSTAFURINN S Í ÍSLENSKUM KVEÐSKAP 77
Þess má geta að þegar skoðuð var tafla yfir ofstuðlun og auka-
ljóðstafi (sjá um framkvæmd rannsóknarinnar hér að framan) kom í
ljós að Matthías var vandvirkari en mörg önnur skáld hvað það
varðaði. Hjá honum fannst aðeins eitt dæmi um ofstuðlun og eitt
dæmi um aukaljóðstafi fyrir utan þessi braglínupör sem nú var tekið
dæmi af. Það þykir mér benda eindregið til þess að hann hafi alla
jafna ekki litið á s + sérhljóð, sv, sj, sl, sm og sn sem einn jafngildisflokk
en látið það eftir sér að nota þessa klasa saman í stuðlun þegar formið
var honum erfitt og tekið það upp eftir öðrum skáldum, til dæmis
Steingrími Thorsteinssyni.
S-stuðlun finnst hvorki hjá Kristjáni Jónssyni Fjallaskáldi né Davíð
Stefánssyni. Þegar kemur að Steini Steinarr eru dæmin hins vegar
þrjú. Þau eru þannig:
Sjáðu til, þar sitja margir
og smátt mun eftir handa þér.
(Steinn Steinarr: Vöggugjöf. 43–4)
Svo styttist þessi ganga smátt og smátt,
og seinast stendurðu einn við luktar dyr.
(Steinn Steinarr: Í áfanga 31–2)
Og sízt vér munum syrgja
hve smátt að launum galzt.
(Steinn Steinarr: Til minningar um misheppnaðan tónsnilling 61–2)
Það vekur athygli þegar þessi dæmi eru skoðuð að öll dæmin þrjú
hafa klasann sm í einhverju sætinu. Hér að framan hefur verið rætt um
sérstöðu sm í s-stuðluninni og ástæðulaust að bæta við það öðru en því
að hafi þeir Eggert Ólafsson og Steingrímur Thorsteinsson verið á
skjön við forna hefð þegar þeir brugðu fyrir sig s-stuðlun þá er Steinn
það enn frekar. Skáld sem uppi voru fyrir 1400 notuðu í s-stuðlun
nánast eingöngu s + sérhljóð, sv og sj með sl og sn en Steinn notar þar
eingöngu sm. Einnig er forvitnilegt að skoða nokkur dæmi sem fyrir
komu í kvæðum Steins þar sem umræddir klasar koma fyrir í fram-
stöðu án þess að vera ljóðstafir og skoðast því sem aukaljóðstafir ef
reglur um s-stuðlun eru í gildi. Dæmin eru þessi:
Nú spyr ég þig, öreiga-æska
sem auðvaldið smáir og sveltir.
(Steinn Steinarr: Öreigaæska 61–2)