Són - 01.01.2005, Page 142
HJALTI SNÆR ÆGISSON142
hversdagslegum veruleika, en skuggarnir samt ekki alveg horfnir; hér
eru svartir blóðdropar, dauði, djöflar og nokkur bílslys.
Því miður er húmornum ekki fyrir að fara í Mótmælum með þátttöku,
Kristian segir þar alveg skilið við þær tilraunir sem tókust best í Ígli.
Mótmæli með þátttöku er stutt saga um mann sem lendir í bílslysi. Á
sjúkrahúsinu rifjar hann upp atburði úr lífi sínu, fyrstu kynni sín af
kærustunni, vandamál úr fyrri ástarsamböndum, drykkju og dóp-
neyslu. Fyrri hluti bókarinnar er hlutlægari og fjallar mestmegnis um
kærustu sögumannsins. Hún er fráskilin móðir, á í sífelldu þjarki við
einn barnsfeðra sinna og vinnur fyrir sér sem vændiskona, að því er
virðist. Einu sinni var hún í hlutverki fjallkonunnar á þjóðhátíðar-
daginn. Í sögu Kristians leynist þar með tilraun til að módernísera
þetta lykiltákn íslenska þjóðernisins: Hvernig er komið fyrir þjóðinni
þegar sjálf fjallkonan er svipt reisn sinni, lánlaus og fráskilin? Þetta er
að vísu gamalt bragð; ekki ómerkari höfundar en Jónas Svafár, Megas
og Spilverk þjóðanna hafa útfært það á sinn hátt. Síðari hluti Mótmæla
með þátttöku er draumkenndur, skilin verða með ljóðinu „Land“ og í
framhaldinu verður samfélagsádeila áleitnari. Sögumaðurinn rekur
raunir sínar og útlistar dapurlegt sálarástand. Í lokin verður hann
fyrir vitrun og snýr frá villu síns vegar, hann tekur nýja stefnu í lífinu
og gerist einsetumaður:
Nú leita ég einskis og bý sáttur langt frá því óðagoti sem ég eitt
sinn hrærðist í. Ég hef dregið mig í hlé og held til í litlu húsi við
sjóinn. Undir húsinu skríða hlykkjóttir ormar.
Stefnan í verkinu er frá óreiðu til friðsældar, frá bílslysi til lítils húss
við sjóinn.
Í Mótmælum með þátttöku örlar víða á skemmtilegum hugmyndum:
Þegar maður ekur útfyrir bæjarmörkin er einsog umferðin á
móti komi nákvæmlega þaðan sem maður sjálfur stefnir.
Ég sé lífið fyrir mér eins og sjónvarp sem var skilið eftir í botni
í yfirgefnu herbergi.
Helsti galli bókarinnar er þó að hún tekur sjálfa sig allt of alvarlega.
Hugmyndin virðist hafa verið að skapa töff og hættulegt verk, hefja
ljóðið upp fyrir þau notalegheit og nostur við hið smáa sem svo oft