Són - 01.01.2005, Page 145
UM LJÓÐABÆKUR UNGSKÁLDA FRÁ ÁRINU 2004 145
Kata er sannfærð um að hann hafi röntgensjón og sjái (bókstaflega) í
gegnum sig. Spurningin um trúverðugleika Kötu sem sögumanns
vaknar snemma og sú spurning er ekki síst tengd Kalvin enda eru
allar lýsingar á honum komnar frá Kötu og því undirorpnar hennar
brengluðu sýn á heiminn. Viðfangsefni á borð við geðveiki, eiturlyfja-
neyslu og sjálfsmorð eru eins og innan seilingar en alls ekki ljóst hvort
þau komi fyrir í alvöru. Saga Kristínar Eiríksdóttur er frábrugðin
sögu Kristians Guttesen einkanlega að því leyti að hér er ekkert full-
yrt með algjörri vissu, ekkert neglt niður, bara spurningar og engin
svör. Hver og einn verður að geta sér til um þau atriði sem honum
finnst skipta máli: Er Kata geðveik eða ekki? Er Kalvin illmenni eða
er Kata hrædd við hann að ástæðulausu? Fremur hann sjálfsmorð í
lokin? Hvernig er forsaga Kalvins og Kötu og af hverju eru þau stödd
þar sem þau eru?
Í viðtali sem birtist skömmu eftir útkomu Kjötbæjarins sagði höfund-
urinn meðal annars:
Bókin lýsir í raun andstyggð á samfélaginu og lífinu í því, nú-
tímalífinu, þótt það hljómi reyndar mjög banalt. Við fylgjumst
með Kötu fara yfir í aðra vídd. [...] Hún vill bara fá að vera í friði
fyrir öllu áreitinu. [...] Kata skilur ekki það sem hún á að skilja,
rökfræði samfélagsins. Hún stenst ekki allar þær kröfur sem
gerðar eru til hennar. Hún fellur ekki inn í samfélagið. Hún vill
frekar vera annars staðar. Og kannski er boðskapur bókarinnar
að það er eitthvað annað til en þessi veruleiki samfélagsins.4
Með þetta í huga má segja að Kjötbærinn sé lýsing á samfélagi, ekki
síður en hugarástandi. Mín skoðun er sú að verkið gangi upp á
báðum forsendum. Kjötbærinn er vel heppnuð frumraun, sennilega ein-
hver bestu tíðindi síðasta ljóðaárs.
3. Ég bað þig um að bíta mig í hálsinn
Kjötbær Kristínar Eiríksdóttur var í síðustu jólabókavertíð gjarnan
nefndur í sömu andrá og önnur bók: Ást og appelsínur eftir Þórdísi
Björnsdóttur, útgefin af höfundi.5 Báðar bækurnar eiga það sameigin-
4 Þröstur Helgason (2004:11).
5 Sjá til dæmis sameiginlegan ritdóm Úlfhildar Dagsdóttur um báðar bækurnar á
bókmenntavef Borgarbókasafnsins, www.bokmenntir.is