Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Page 7
5
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
háskólastigsins, einkum í ljósi yfirstandandi fjármálakreppu í landinu. Hann kallast á
við pistil Atla Harðarsonar í síðasta tölublaði um framhaldsskólann. Sex fræðilegar,
ritrýndar greinar eru á íslensku og ein á ensku. Það minnir á að ritið tekur greinar
til birtingar á hvoru málinu sem er. Jafnframt eru rannsóknaraðferðir fjölbreyttar.
Ársæll Már Arnarsson og Þóroddur Bjarnason frá H.A. gera grein fyrir niðurstöðum
alþjóðlegrar spurningalistakönnunar á einelti þar sem fram kemur að það er fátíðara
í íslenskum skólum en í mörgum öðrum löndum. Ennfremur að varasamt er að draga
fljótfærnislegar ályktanir um einkenni gerenda og þolenda því að staða þeirra tengist
meðal annars samskiptum við fjölskyldu og vini. Guðríður Adda Ragnarsdóttir
frá Atferlisgreiningu og kennsluráðgjöf fjallar um kennslu eins nemanda með
leshömlun þar sem beitt er beinum fyrirmælum og hnitmiðaðri færniþjálfun.
Hún kallar það rannsókn og könnun. Kristín Bjarnadóttir frá Menntavísindasviði
H.Í. beitir sögugreiningu til að færa rök fyrir þeirri tilgátu sinni að tilteknar
stjórnsýsluákvarðanir hér á landi hafi valdið stöðnun í þróun stærðfræðimenntunar
á tímabilinu 1929-1966 og jafnframt meiri væntingum til nýstærðfræðinnar, sem
síðar kom fram, en forsendur reyndust fyrir. Margir tónmenntakennarar hafa átt
erfitt með að skilgreina sig bæði sem kennara og tónlistarmenn og þeim hefur
þótt vinnuaðstaða sín í skólum erfið. Kristín Valsdóttir frá Listaháskólanum ræddi
við níu farsæla tónmenntakennara í grunnskólum um það hvernig þeim tækist að
sameina þessi tvö hlutverk með sterkri fagvitund og metnaði í starfi. Það er ótrúlega
mikil innbyrðis samsvörun í afstöðu þeirra til kennslufræði tónmennta. Meyvant
Þórólfsson, Allyson Macdonald og Eggert Lárusson frá Menntavísindasviði H.Í.
skýra frá niðurstöðum úr viðtalsrannsókn þar sem náttúrufræðikennarar lýsa því
hvernig þeir nota upplýsinga- og samskiptatækni. Hér ræður starfskenning hvers
og eins mestu, þótt aðstæður á hverjum stað móti jafnframt framkvæmdina. Samúel
Lefever, einnig frá Menntavísindasviði. H.Í., gefur yfirlit yfir nýlegar rannsóknir á
enskukennslu í grunnskólum hér á landi með tilliti til kennslu- og námsmatsaðferða
og hvort þær samræmist Aðalnámskrá grunnskóla. Niðurstöðurnar sýna að töluvert
vanti upp á að sú heildstæða, nemendamiðaða kennsla sem Aðalnámskrá gerir ráð
fyrir og sem leggur áherslu á tjáskiptahæfni nemenda á ensku sé nýtt í kennslunni.
Í staðinn er byggt að mestu á bókmiðaðri kennslu, ekki síst í eldri bekkjunum.
Manni fallast hendur við að sjá þessa niðurstöðu um kennsluaðferðir á unglingastigi
grunnskólans eina ferðina enn. Sigríður Síta Pétursdóttir frá Fræðslusviði Kópavogs
gerir grein fyrir viðtalsrannsókn á viðhorfum leikskólakennara til umhyggju í
skólastarfi. Niðurstaðan er sú að kennararnir í tveimur leikskólum töldu umhyggju
Að leita svara