Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Side 35
35
Frá þessu sjónarhorni var andstaða Íslands og Evrópu á sviði bygging-
arlistar jafnvel enn meira sláandi. Það fannst að minnsta kosti Guðmundi
Finnbogasyni árið 1923. Hann var þá prófessor í hagnýtri sálarfræði við
Háskóla Íslands og mjög áberandi í menningarumræðunni. Í samhengi
þeirrar áherslu sem lögð hafði verið á samlíkingu íslenska þjóðveldisins
og Grikklands til forna sem vöggu lýðræðis, bókmenntaarfs og vestrænnar
menningar yfirleitt var reykvísk byggingarlist heldur tilkomulítil borin
saman við Aþenu. Guðmundur velti því fyrir sér hvort Íslendingar gætu
„kinnroðalaust hugsað um samlíkinguna“ eftir að hafa virt fyrir sér lágreista
timburhúsabyggðina í Reykjavík. „Getum vér hugsað oss naprara háð“,
spurði hann borgarbúa sem safnast höfðu saman við Alþingishúsið í tilefni
hátíðarhaldanna á fimm ára afmæli fullveldisins, 1. desember 1923, „en að
bera Reykjavík nú saman við Aþenuborg Periklesar?“13 Þótt Guðmundur
mæti handritin að verðleikum fór um hann ónotakennd vegna ófullkom-
leika íslenskrar menningar. Tilfinningin spratt af samanburðinum við fyr-
irmyndirnar, hinar svokölluðu „menningarþjóðir“ sem oft var vísað til, og
birtist í þessu tilviki í Aþenu á gullöld sinni.
Viðbrögð íslenskra menntamanna við þessum „menningarhalla“ voru
af ýmsum toga. Til dæmis gerðist Guðmundur talsmaður þess að reist
yrði háborg á Skólavörðuholtinu til að leiðrétta þetta sögulega misvægi
eða misræmi milli glæsileika fornbókmenntanna og kotlegrar ásýndar höf-
uðstaðarins. Honum hafði enda verið tjáð af þeim sem komið höfðu til
Aþenu að útsýnið af Skólavörðuholtinu væri síst lakara en af Akrópólishæð
og skoraði á samlanda sína að bregðast við sögulegri köllun sinni: „Reisum
[háborgina] sem fyrst. Stefnum því þangað sem best er í íslenskum huga
og höndum og sjáum hve langt það nær. Reisum háborgina sem tákn og
minnisvarða sannarlegs sjálfstæðis sem á upptök sín og aðalbrunn í manns-
sálunum og hvergi annarstaðar.“14
Aðrir fóru þá leið að benda á nauðsyn frekari rannsókna á íslenskri
menningarsögu. Á árunum í kringum 1930 kvað sagnfræðingurinn Þorkell
Jóhannesson (stundum kenndur við Fjall) það bráðnauðsynlegt að ráðast
þá þegar í nákvæmar rannsóknir bæði á íslenskri listasögu og sögu alþýðu-
menningar. Ólíkt Guðmundi stóð hann í þeirri trú að menningarhallinn
13 Lögrjetta 3. desember 1923, bls. 2.
14 Lögrjetta 3. desember 1923, bls. 2. Sjá einnig Ólafur Rastrick, „The Acropolis of
Icelandic Culture“, Citizenships and Identities: Inclusion, Exclusion, Participation,
ritstj. Ann Katherine Isaacs, Pisa: Edizioni Plus, Pisa University Press, 2010, bls.
77–80.
POSTULÍNSHUNDAR OG GLöTUÐ MEISTARAVERK