Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Síða 37
37
jafnframarlega öðrum þjóðum að listfengi.“17 Með rannsóknum sínum
höfðu Matthías og Fett varpað ljósi á sögu íslenskrar myndlistar og þar
með gefið til kynna að eyðurnar væru til marks um skort á þekkingu frem-
ur en menningu. Rannsóknirnar taldi Bjarni sýna að eyðurnar í íslenskri
menningarsögu (sem í þessu tilviki birtust í skorti á sögulegu samhengi
íslenskrar myndlistar) ættu ekki rætur að rekja til þess að Íslendingar fyrri
alda hefðu ekki verið myndlistarmenn á heimsmælikvarða heldur til þess
að rannsóknum á þessum arfi hefði ekki verið sinnt sem skyldi. Hér var
því kallað eftir auknum rannsóknum til að vinna mætti enn frekar á menn-
ingarhallanum. Samhengið sem rannsóknir Matthíasar og Fetts höfðu
leitt í ljós var þannig vitnisburður um þann „óslitna þráð“18 sem Sigurður
Nordal sagði stuttu síðar binda saman menningarsögu Íslendinga allt frá
fyrstu öldum byggðar.
Samfélagslegt hlutverk lista og menningararfs
Áhuginn á því að lögð yrði meiri rækt við rannsóknir á íslenskri lista-
og menningarsögu tengist jafnframt ákveðnu viðhorfi eða sýn á félags-
legt hlutverk sem samfélagsrýnar á borð við Bjarna Jónsson og Þorkel
Jóhannesson mörkuðu fyrir listir og menningu. Í grein þess síðarnefnda
frá árinu 1929 sagði hann hlutverk lista ekki síst vera „að glæða fegurðarvit
manna, smekkvísi og ást á því sem fagurt er“. Almenningur þyrfti að hafa
greiðan aðgang að fegurðinni í formi listaverka til þess að geta hafist upp
á æðra menningarstig. Það þyrfti því að hlúa að íslenskri listsköpun og um
leið rannsaka og miðla þekkingu á íslenskum menningararfi eða á því besta
sem íslenska þjóðin hefur skapað í þúsund ára sögu sinni. Sinnuleysi um
menningarlega arfleifð þjóðarinnar hefði leitt til þess að hversdagsmenn-
ingu almennings hefði hnignað. „Allt of lengi“, skrifaði Þorkell, „hefir
alþýða þessa lands farið á mis við fegurð í list. Híbýlaprýði hefir verið
næsta fágæt. Góðar fyrirmyndir hefir vantað. Oss Íslendinga hefir hreint
17 Alþingistíðindi 1922 B, d. 143. Auk rits Matthíasar Þórðarsonar, Íslenskir listamenn
(Reykjavík: Listvinafélag Íslands, 1920), vísaði Bjarni til rita norska listasögufræð-
ingsins og síðar ríkisskjalavarðar Harrys Fett sem hafði opnað augu manna fyrir ís-
lenskri málaralist fyrri tíðar (En islandsk tegnebog fra middelalderen, Kristjanía: Jakob
Dybwad, 1910; Miniatyrer fra islandske haandskrifter, Bergen: Bergens Museum,
1910).
18 Sigurður Nordal, „Samhengið í íslenzkum bókmenntum. Inngangur að Íslenzkri
lestrarbók“, Samhengi og samtíð I, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1996,
bls. 15–38, hér bls. 35.
POSTULÍNSHUNDAR OG GLöTUÐ MEISTARAVERK