Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 67
67
snertir helstu ágreiningsmál íslenskrar menningarumræðu á ritunartím-
anum, átökin á milli hins innlenda og erlenda, gamla og nýja, en verk-
ið sýnir, eins og fyrr var getið, breytta og afgerandi afstöðu höfundar til
þeirra. Og amerískur rammi utan um íslenskt innihald er að minnsta kosti
ísmeygileg gagnrýni á meiri amerísk áhrif hérlendis og meiri fjöldamenn-
ingu, en verkið er skrifað sumarið eftir lok stríðsins og nokkurra ára her-
setu Bandaríkjamanna.50 Í ljósi þessa fær það jafnvel enn víðari og sterk-
ari menningarpólitíska skírskotun að leikritið skuli sprengja utan af sér
(útlenskan?!) „rammann“ í lok verks.
Inn í þessa annars fremur flatneskjulegu menningarumræðu kvenfélags-
fundarins kemur listakonan Jóhanna, nýstigin frá borði fyrsta skipsins sem
siglir til Íslands eftir lok stríðsins. Hún staðfestir að Kolbeinn Halldórsson
sé mikill listamaður en segist sjálf ekki geta málað altaristöfluna. Hún hafi
einu sinni hugsað um mynd sem hefði getað orðið slíkt verk en hún hafi
ekki getað málað hana. Það var mynd af „freistingunni á fjallinu“ (250) og
hún lýsir henni sem eins konar mynd í mynd, hún „hefði viljað láta sjást
tvennt í einu“ (250), til dæmis Rómaborg sem var í raun aðeins þorp eða
eins og þegar „sólarlag í Reykjavík speglast í búðarglugga með alls konar
dóti“ og það „sést hvað í öðru“ (251). Verkið sem Jóhanna lýsir kallast á við
upplausn veruleikalíkingarinnar sem á sér stað síðar í leikritinu og verður
þannig að eins konar frásagnarspegli, verki innan verksins sem varpar ljósi
á samsetningu þess í heild.51 Í öðrum þætti ryðst Jóhanna inn um svefn-
herbergisglugga Helga að næturlagi (allir listamenn í verkinu eru gestir)
og er það annar slíkur frásagnarspegill. Jóhanna kemur til Helga þessa nótt
til þess að vekja hann til skáldadraumsins sem hann geymir með sér (þegar
Helgi sér hana fyrst í fyrsta þætti segir hann það „líkt og hann hafi vaknað
af draumlausum svefni til draums“ (246)) og hún lofar að vera farin „áður
en haninn galar í þriðja sinn“ (264). Hér kallast textinn á við „Lognöldur“
þar sem Agnar í lok sögu sofnaði frá skáldadraumi sínum „áður en haninn
gól í þriðja sinn“. Í umræðum þeirra um skáldskapinn þessa næturstund er
að finna enn einn frásagnarspegil verksins; skáldsögu sem Helgi segist ætla
að skrifa um manninn, hún á að rúma allt lífið með sögu eins manns, vera
50 Sigurður Nordal, „Að leikslokum“, List og lífsskoðun I, bls. 363.
51 Sjá um frásagnarspegla í grein Jóns Karls Helgasonar, „Deiligaldur Elíasar. Tilraun
um frásagnarspegla og sjálfgetinn skáldskap“, Ritið 3/2006, bls. 101–130, einkum
bls. 107–111. Jón Karl fjallar um Uppstigningu sem „meðvitað skáldverk“ í annarri
grein, „„Þú talar eins og bók, drengur“. Tilraun um meðvitaðan skáldskap“, Skírnir
vor 2011, bls. 89–122.
VAKA OG VAKI , UPPRISA OG UPPREISN