Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Síða 100
100
ingu.25 Er það miður enda augljóslega mikilvægt að greina nákvæmlega
mismunandi merkingar og notkunarmöguleika allra þeirra hugtaka sem
koma við sögu og geta túlkað tilgangsorsakir. Heimspekistefnur sem falla
undir aðra meginflokka heimspeki samtímans hafa verið litlu öflugri en
rökgreiningarheimspekin þegar kemur að markhyggju. Svo virðist sem
tilgangsorsakir eigi sér ekki fremur málsvara í hefð meginlandsheimspek-
innar en meðal rökgreiningarheimspekinga.26
Greinarmunurinn á tveimur helstu gerðum tilgangs er fyrsta viðfangs-
efni þess sem tekur sér fyrir hendur að koma böndum á markhyggju.
Annars vegar er hinn augljósi tilgangur: þegar hlutur, atvik eða eiginleiki
þjónar ákveðnu hlutverki. Nærtækasta líkingin væri við gangverk. Þessi
merking „tilgangs“ eða „tilgangsorsaka“ er sú sem vísindamenn sautjándu
aldar, sem nefndir voru hér að ofan, gripu til.27 Enda fellur hún ágætlega
að þeirri kenningu sem var heimspeki nýaldar og hefur verið kölluð vél-
hyggja.28 Það er því varla hægt að tala um að þeir hafi endurskilgreint
25 Það skal þó viðurkennast að það er þreytandi og einfeldningslegur leikur að saka
rökgreiningarheimspeki um að vera áhugalausa um þetta eða hitt; kunnasta dæmið
er væntanlega meint áhugaleysi rökgreiningarheimspekinga á sögu heimspekinnar.
Yfirleitt má finna ákaflega markverðar undantekningar. Það sama á við í þessu
tilfelli. Tvö nýleg ritgerðasöfn geyma til dæmis greinar sem flokkast væntanlega
undir rökgreiningarheimspeki, sjá Purposiveness. Teleology between Nature and Mind,
ritstj. L. Illetterati og F. Michelini, Frankfurt-Hausenstamm: Ontos Verlag, 2008,
og Functions. New Essays in the Philosophy of Psychology and Biology, ritstj. A. Ariew,
R. Cummins og M. Perlman, Oxford: Oxford University Press, 2009.
26 Viðhorf í meginlandsheimspeki litast öðru fremur af afstöðu til heimspeki Hegels.
Margir taka afstöðu gegn þeirri róttæku markhyggju sem þróaðist á fyrri hluta nítj-
ándu aldar og með and-markhyggju Nietzsches. Foucault er til dæmis höfundur
sem telur að gagnrýni lífvísinda á markhyggju megi færa inn á svið mannvísinda.
27 Margret Osler hefur ritað nokkuð um meint hvarf tilgangsorsaka í verkum breskra
náttúruvísindamanna á sautjándu öld, sjá t.d. grein hennar „From Immanent
Causes to Nature as Artifice: The Reinterpretation of Final Causes in Seventeenth-
Century Natural Philosophy“, The Monist 3/1996, bls. 388–407.
28 „Vélhyggja“ er hugtak sem þarf að fara varlega með í umfjöllun um heimspeki og
vísindi sautjándu aldar. Þeir heimspekingar sem teljast hafa fylgt vélhyggju að mál-
um gerðu það ekki því þeir sáu náttúruna fyrir sér sem einhvers konar gangverk þar
sem tannhjól hreyfðu við öðrum tannhjólum. Vélhyggjan snerist um útskýringar,
þar sem allt í náttúrunni var aðeins útskýrt sem mælanlegar efnisagnir og mælanleg
hreyfing þeirra. Samsettar verur höfðu aðeins vísindalegt gildi hvað varðaði stærð
þeirra, en heild þeirra (þ.e.a.s. sú staðreynd að hlutar þeirra tengdust) hafði ekkert
gildi í sjálfri sér, en það var höfuðatriði hjá Aristótelesi. Fáir náttúruspekingar á
sautjándu öld mótmæltu því að stærð og lögun væru frumeiginleikar í skýringum,
en nokkrir, þar á meðal Leibniz, mótmæltu því að hreyfing (og þar með breytingar)
yrði aðeins útskýrð með vísun til stefnulauss rúmtaks.
HeNRy AlexANdeR HeNRySSoN