Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Síða 121
121
ná samruna og sáttum svo maður verði leystur undan fortíðinni og tekur
þetta ferli oft á sig mynd þar sem það leitar að uppruna eða samastað.18
„Mér finnst ég hafa verið eins og klukka ...“
Þegar Páll yfirgefur Djúpafjörð eftir andlát ömmu sinnar og flytur til
Reykjavíkur, tekur hann nokkra hluti með sér sem hann hefur fengið í
arf: klukku sem amma hans hafði fengið frá kvenfélaginu þegar hún varð
sjötug, kommóðu ömmu sinnar, myndir af móður sinni og ömmu og spor-
öskjulagaða mynd sem móðir hans hafði saumað út. Þessir hlutir fylgja
Páli í gegnum þríleikinn og mynda tengsl við fortíðina. Það sem vekur
sérstaka athygli með tilliti til efnisins sem fengist er við hér, er að hlutirnir
teljast allir til algengra myndhverfinga sem notaðar eru um minnið og því
er full ástæða til að staldra aðeins við þá.
Eins og hefur komið fram byrjar Páll eldri, sögumaður þríleiksins, end-
urminningar sínar á því að líkja yngri gerð sjálfs sín við klukku ömmunnar
og lýsir henni þannig:
Hún sló öðruvísi en gamla klukkan, hljómurinn var skærari miklu og
kaldari, en auk þess tifaði hún hraðara, líkt og hún þyrfti að halda í við
fóthvatari tíma en við höfðum átt að venjast í kofanum okkar. (G 8)
Alveg frá byrjun er því ljóst að tíminn á eftir að gegna mikilvægu hlutverki
í verkinu. Hér er á ferð samanburður á ólíkum takti og tímum; nýr tími
er yfirvofandi og hann er „kaldari“, „skærari“ og „fóthvatari“. Þessi nýi
tími gerir það að verkum að Páll, sem er ennþá drengur, fer að finna fyrir
óskiljanlegum kvíða, „annarlegum beyg“ (G 9), sem fylgir honum allan
þríleikinn. Hálfum mánuði eftir að amma hans fær klukkuna stendur hún
allt í einu, „eins og [henni] væri af dularfullum ástæðum fyrirmunað að
þreyta kapphlaup við tímann“ (G 10). Jafnvel Jóakim Jónssyni, sem „leysti
hvers manns vandræði“ á Djúpafirði, tekst ekki að koma henni aftur til að
tifa (G 10–11). Af þessu sprettur sundurlyndi og tilfinningarót sem veldur
flokkadráttum í þorpinu: „ófriðarblikan dökknaði jafnt og þétt“, og verða
„hörð átök tveggja stórvelda í kvenfélaginu“ (G 23). Það þarf ekki minna
en jarðskjálfta til að koma klukkunni aftur í gang.
Kvenfélagsklukkuna, eins og hún er kölluð síðan, selur Páll seinna
þegar hann er fluttur til Reykjavíkur til að geta keypt handa unnustu sinni
18 Annette Kuhn, „A Journey through Memory“, bls. 104–105.
HRINGSÓL UM DULINN KJARNA