Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Síða 122
122
gjöf, en sögumaðurinn gerir klukkuna og gangvirki hennar að tákni „þessa
undarlega ástands“ sem Páll yngri upplifir þegar síðari heimsstyrjöldin
brýst út 3. september 1939:
þegar ég rifja upp fyrir mér líf mitt á fimmta áratugi þessarar aldar,
þá kemur mér klukkan sú arna ávallt í hug. Einhver dingull hætti að
sveiflast, einhver hreyfing stöðvaðist í brjósti mér, ég var um langt
skeið eins og ráfa, skildi hvorki sjálfan mig né aðra. (G 25)
Sagan sem er sögð í upphafi þríleiksins tengir klukkuna því strax við stríðs-
ástand. Þessi tengsl verða enn skýrari í lok Gangvirkisins, þegar Ísland er
hernumið og gangvirkið innra með Páli hættir algjörlega að tifa.
Klukkan og gangvirki hennar mynda greinilega eins konar táknræna
umgjörð utan um söguna alla, sem dregur athygli að því að tímaskynj-
un Íslendinga er að breytast svo um munar, og fer að skipta miklu máli.
Innreið nútímans hefur ekki aðeins í för með sér að tíminn virðist líða
miklu hraðar en áður og stjórna lífi fólks, heldur fylgir henni líka tímarof
og þegar tíminn er kominn úr lagi gagntekur hann okkur.19 Klukkan virð-
ist vera merki um þennan tímahyl (e. the abyss in time), það bil milli fortíðar
og nútímans sem Richard Terdiman tengir við minniskreppuna.20 Douwe
Draaisma, sem hefur kannað hugmyndir um mannshugann í gegnum tíð-
ina, bendir á að frá 17. öld hefur gangvirki oft verið notað til að tákna
hugann og ekki síst minnið.21 Það sem er sérstaklega athyglisvert er að
þessi hugmynd, að maðurinn og hugur hans séu eins og gangvirki, gefur
til kynna vélrænt eðli mannsins, enda líkir höfundur Páli við „gervikarl-
inn“ Gosa, þó óbeint sé, eins og Þóra Sigríður Ingólfsdóttir hefur bent
á, og verða báðir að alvöru manni að lokum.22 Höfundur virðist því ætl-
ast til þess að við túlkum klukkuna og gangvirkið sem merki um innreið
nútímans og vélmenningar í íslenskt samfélag.
En minnið hefur lengst af ekki aðeins verið tengt tíma heldur líka rúmi.
Eins og Katharine Hodgkin og Susannah Radstone benda á er minninu oft
19 Richard Terdiman, Present Past, bls. 23.
20 Sama rit, bls. 4.
21 Douwe Draaisma, Metaphors of Memory: A History of Ideas about the Mind, þýtt úr
hollensku af Paul Vincent, Cambridge: Cambridge University Press, 2000.
22 Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, „Að verða að alvöru manni. Um Gosa gervikarl og
Pál Jónsson blaðamann í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar“, Andvari 2010, bls.
119–128.
dAiSy NeijmANN