Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Side 149
149
hvernig hugsanir hins unga Péturs og frásögn sögumanns sameinast og
skilin þar á milli verða óljós:
Drengur þekkir enga vonda menn, nema stundum finnst honum
pabbi vera vondur við mömmu. Afi er í rauninni aldrei vondur
við ömmu, ekki í alvöru. Og drengur veit að pabbi er ekki vondur.
Pabbi hefir úrslitaorð um rétt og rangt, illt og gott, ljótt og fallegt.
Þessvegna hlýtur pabbi að vera góður. (62)
Mörk frásagnaflokkanna í líkani Richardsons eru ekki afgerandi heldur
fljótandi því líkanið gerir ráð fyrir frásögnum á jöðrunum. 2. persónu
frásagnir eru til dæmis afar ólíkar innbyrðis – rétt eins og 1. og 3. persónu
frásagnir – en geta legið nálægt jöðrum 1. persónu eða 3. persónu frásagna.
Richardson staðsetur maður-frásagnir – það er frásagnir þar sem fornafnið
maður vísar til aðalpersónunnar – á mörkum 2. og 3. persónu frásagna
og með svipuðum hætti liggja við-frásagnir á mörkum 1. og 3. persónu
frásagna. Fludernik segir maður-frásagnir hafa marga sömu eiginleika og
2. persónu frásagnir og stundum sé óljóst til hvers þær vísa. Maður kemur
ósjaldan fyrir í frjálsri óbeinni ræðu þar sem óákveðnin hylur ábyrgð sögu-
persónunnar eða sýnir tregðu hennar til að horfast í augu við gerðir sínar
og tilfinningar.18 Ágætt dæmi um maður-frásögn er smásagan „Maður uppi
í staur“ úr smásagnasafni Jakobínu, Púnktur á skökkum stað (1964). Sagan
er eintal sögupersónu sem á erfitt með að sýna samfélagslega ábyrgð:
Nú, maður á ekki að láta þetta snerta sig þegar maður þekkir ekk-
ert til fólksins. Það er bara taugaveiklun. Hvernig ætli fólk fari að í
öðrum löndum, þar sem alltaf er verið að berjast og drepa fólk? En
það fólk hlýtur nú að vera eitthvað öðruvísi en við. Eða − ? Jæja,
manni kemur það ekkert við, – það er þeirra mál. – Og hvað gæti
maður líka gert? Konur, börn og gamalmenni hafa verið sprengd í
tætlur, brennd, skotin. – – Uss, ekki hugsa um það. Maður gæti ekk-
ert gert hvort eð er.19
18 Monika Fludernik, Towards a ‘Natural’ Narratology, London og New York: Rout-
ledge, 1996, bls. 232–234.
19 Jakobína Sigurðardóttir, Púnktur á skökkum stað, Reykjavík: Heimskringla, 1964,
bls. 135.
„FORM OG STÍLL öRÐUGT VIÐFANGS“