Skírnir - 01.01.1971, Side 178
176
RITDÓMAR
SKÍRNIK
myndir Hjálmars um að hann væri launsonur séra Sigfúsar Jónssonar í Höfða.
Skal hér ekki lagður á það dómur, hvort félags- eða sálfræðingum er akkur
í þessum hugleiðingum, en innfæddum íslendingum opna þær fáar nýjar sýnir
inn í kveðskap Hjálmars.
Lokakafli ritgerðarinnar nefnist Das Ende (Lokin), og segir þar frá síðustu
árum og andláti Hjálmars. Þar verður höf. illa á í messunni (bls. 420), er
hann telur Hjálmar hafa ort erindin Daprast mér orð í dimmu nauða... (sjá
Ritsafn útg. 1949-60, VI, 191) árið 1874, en þau eru í handriti, sem talið
er skrifað af Ólafi syni hans, sem lézt 1866. Að lokum eru svo rækileg heim-
ildaskrá, nokkur rithandarsýnishom Hjálmars, öll upp úr prentuðum bókum,
ættartafla, þrjú kort, þar af tvö áður prentuð, og loks er gerð grein fyrir höf.
Með ritgerðinni fylgir og í sérstöku hefti þýzk lausamálsþýðing allra tilvitn-
ana í verk Hjálmars, sem teknar eru upp í hana.
Hér hefur nú verið fundið að býsna mörgu varðandi þessa ritgerð og þó
ekki vikið nema að litlum hluta þeirra staða, þar sem höf. liggur vel við högg-
um. Til viðbótar verður þó að nefna það, að hinn textafræðilegi grundvöllur
hans er allsendis ófullnægjandi. Höf. styðst við útgáfu Finns Sigmundssonar
á verkum Hjálmars, sem að vísu er heildarsafn, en eigi að síður einungis
lestrarútgáfa ætluð almennum lesendum og fjarri því að vera nægilega ná-
kvæm og ýtarleg til að hana megi leggja óendurskoðaða til grundvallar vís-
indalegri rannsókn á skáldskap Iljálmars.
Að vísu má þó benda á, höf. til málsbóta, að ritgerð hans sé samin af út-
lendingi á erlendu máli og því væntanlega ætluð útlendum lesendum. Má vera,
að á þann hátt megi réttlæta eitthvað af öllum þeim býsnum af óskyldum
fróðleik og endursögnum efnis úr íslenzkum bókum, sem í henni er að finna.
En það breytir út af fyrir sig engu um það algjöra fræðilega stefnuleysi, sem
í henni er ríkjandi. í ritgerð á borð við þessa mætti t. d. eiga von á einhverri
tilraun til heildaryfirlits um yrkisefni Hjálmars og sömuleiðis einhvers konar
heildarathugunum á stíl hans, bragarháttanotkun eða fyrirmyndum, en á engu
slíku örlar í henni. Þvert á móti virðist hreint handahóf ráða því, hvaða
verk hans eru þar tekin til meðferðar, og við það bætist svo hitt, að hún er
reist á ótraustum heimildagrundvelli og ófullnægjandi þekkingarundirstöðu
höfundarins sjálfs.
En hvað sem öllu þessu líður, þá má þó ekki skilja þessi orð svo, að fram-
tak höf. sé hér einskis metið. Það þarf vissulega bæði kjark og áræði til að
velja sér viðfangsefni úr bókmenntum erlendrar þjóðar, og það reyndar ekki
af lakari endanum, og með ritgerð sinni hefur höf. sýnt það áþreifanlega, að
hann á til nóg af hvorutveggja. Ritgerðin er og unnin af geysimiklum dugnaði
og áhuga og greinilega með virðingu fyrir viðfangsefninu. Það fer heldur ekki
á milli mála, að höf. hefur viðað að sér verulegri þekkingu á ýmsum sviðum
íslenzkra fræða, sem vonandi á eftir að koma þeim að notum síðar. Þess vegna
er það ósk mín höf. til handa, að ritgerðin sé aðeins upphafið á haldbetri
skrifum hans um íslenzkar bókmenntir - þar er af nógu að taka og nægilegt
svigrúm fyrir nýja liðsmenn.
Eysteinn Sigurðsson