Skírnir - 01.09.1995, Side 16
286
ÞRÖSTUR HELGASON
SKÍRNIR
persónu skáldsins, ætt þess og einkahögum. Fyrsta skáldatalið af
þessu tagi, Recensus poetarum et scriptorum Islandorum hujus et
superioris seculi, skráði Páll Vídalín lögmaður (1667-1727) en
hann lést áður en hann gat lokið verkinu. Recensus segir frá
skáldum og rithöfundum á sextándu og sautjándu öld og er um-
fjöllunin um séra Einar Arnfinnsson dæmigerð:
Sr. Einar á Stað Arnfinnsson, sonur prests á sama stað, varð djákni á
Reynistað, en eignaðist laungetna dóttur. Síðan varð hann eftirmaður
föður síns í prestsembætti, en kvæntist aldrei, þar sem hann eignaðist son
með konu úr alþýðustétt. Hann fékk aftur prestsembætti og varð gamall.
Hann var vel bóklærður maður, víðlesinn en allt of trúgjarn. Hann
samdi Framfærslukamb.14
Fleiri fengust við að skrá rithöfundatöl á fyrri hluta átjándu aldar.
Hvað merkast þeirra er ef til vill safn Jóns Ólafssonar frá
Grunnavík (1705-1779), Collectanea ad Historiam literariam
Islandiœ, sem fjallar um „íslenska fræðimenn“, ævi þeirra og
verk. Jón vann að þessu safni sínu árin 1738 til 1741, eða þar um
bil, og fjallar það einkum um höfunda frá sextándu, sautjándu og
átjándu öld. Einnig er þar töluvert mál um íslenskar bókmenntir
fyrir siðaskipti, bæði skáld, kveðskap þeirra og sögur. Umfjöllun
um einstaka höfunda skiptir Jón í flestum tilvikum í tvennt, ann-
ars vegar í ritaskrá og hins vegar í æviágrip þar sem að jafnaði er
stiklað á stóru en þó tíðum einhverju bætt við til að gera lýsing-
una nákvæmari, svo sem umsögnum um verk höfundarins eða
sögum um tilurð einstakra verka. I inngangi að safninu nefnir Jón
þá menn sem hann vissi til að hefðu fengist við að rita um ís-
lenska bókmenntasögu áður fyrr og telur þar upp Pál Vídalín
lögmann, séra Eyjólf Jónsson á Völlum, Jón Þorkelsson skóla-
meistara (1697-1759) og Arna Magnússon handritasafnara (1663-
1730), sem að sögn Jóns hafði átt gott safn bókmenntasögulegs
efnis sem allt fór í eldinn í Kaupmannahöfn 1728.15
14 Páll Vídalín, Recensus poetarum et scriptorum Islandorum hujus et superioris
seculi. Viðauki séra Þorsteins Péturssonar sem einnig þýddi, Jón Samsonarson
bjó til prentunar (Stofnun Árna Magnússonar á íslandi, Reykjavík 1985, s. 20).
15 Sjá Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík (Hið íslenzka fræðafélag í
Kaupmannahöfn, Kaupmannahöfn 1925, s. 177-205).