Skírnir - 01.09.1995, Side 32
302
ÞRÖSTUR HELGASON
SKÍRNIR
Benedikt segir að fegurðin sé miðlæg í hugsun og þekkingar-
heimi mannsins. Hún miðlar á milli hins skiljanlega og hins yfir-
skilvitlega, á milli náttúrunnar og andans sem eru „efnisgrund-
völlur skáldskaparins“ og jafnframt „það tvenns konar eðli, sem
allt hið veranda kemur fram í á tvennan hátt: líkamlegan og and-
legan (ólíkamlegan)“ (s. 72). Samkvæmt þessu á skáldið að vera
nokkurs konar lýsandi, það á að opinbera samhengið í heiminum,
óljós tengsl á milli hins ytra og innra. Benedikt segir:
Þess vegna þarf hann [skáldið] bæði að þekkja mannlega sál, og umgjörð
hennar, sem er náttúran; og því verður skáldskapur í víðasta skilningi
sama sem heimspeki, því að allir hlutir eru í sambandi hvor við annan, en
þótt vjer sjáum minnst af því. (s. 72)
Skáldið þarf samt ekki að leita inn í innstu djúp orsakanna, að
sögn Benedikts, „heldur á lýsing hans að vera þannig, að orsak-
irnar taki sig út í þeim, eins og í gegnum hálfgagnsæja blæju“ (s.
72). Skáldskapurinn er því engin vísindi heldur eins konar galdur
sem skýrir óljós tengsl hlutanna, eða „aleðlið“ eins og Benedikt
kallar það, svo við „skynjum það undir niðri“ (s. 69). Benedikt
gæðir skáldið snilligáfu sem er nokkurs konar lykill að skilningi
mannsins á heiminum og tilvistinni. Hlutverk skáldsins er hafið
upp í æðra veldi, iðja þess er sérstæð og á færi fárra.44
Arið 1888 hélt Hannes Hafstein fyrirlestur í Reykjavík um
ástand íslensks samtímaskáldskapar. Þar er deilt hart á innihalds-
leysi skáldskaparins sem Hannes telur að rekja megi til þess „að
það er engin hreyfing í þjóðinni sem stendr, enginn lífvænn þjóð-
vilji, enginn sterkr, pólitískr undirstraumur“.45 Ennfremur fettir
hann fingur út í þjóðernishyggjuna sem hann telur hafa einkennt
skáldskapinn framar öðru á nítjándu öldinni og segir í anda
Georgs Brandes (1842-1927), hins danska lærimeistara raunsæis-
manna:
44 Þórir Óskarsson fjallar rækilega um fagurfræði Benedikts Gröndals í bókinni
Undarleg tákn á tímans bárum. Ljóð og fagurfneði Benedikts Gröndals
(Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1987, s. 107-47).
45 „Hnignun íslensks skáldskapar", Fjallkonan. 2. blað (Reykjavík 1888, s. 6).
Hér er einungis birt niðurlag fyrirlestrarins en annað hefur ekki varðveist af
honum.