Skírnir - 01.09.1995, Page 111
SKÍRNIR
STJÓRNARSKRÁ OG MANNRÉTTINDI
381
Lágmarksríkið
Nú er ríkið tengt valdinu. Baráttan fyrir mannréttindum snýst
nálega öll um að vernda þegnana fyrir „ofurvaldi" þess; mann-
réttindaumræðan hér á landi er meðal annars til marks um það.
Megináherzlan er lögð á frelsisréttindin og spyrja má hvort
þau verði ekki bezt tryggð með því að draga úr umsvifum ríkis-
ins; og fara þess í stað leið frjálsra samtaka og samvinnu eftir því
sem frekast er kostur, en leið nauðungar eins sjaldan og hægt er.19
Þeir sem lengst vilja ganga telja lágmarksríkið eitt réttlætanlegt -
ríki sem gegni því hlutverki einu að vernda menn hvern fyrir öðr-
um og tryggja lög og rétt. Oll ríkisafskipti umfram það séu brot á
réttindum þegnanna. Ríkið sé ekki nauðsynlegt til að koma á
reglu og skipulagi; hvorttveggja geti þróazt á markaði án þess að
nokkur setji regluna eða ákveði skipulagið. Af þessu spretti eins
konar frjálst og sjálfvirkt markaðsþjóðfélag. - Þeir sem slíkan
boðskap flytja eru kallaðir markaðshyggjumenn (anarkó-kapítal-
istar) til aðgreiningar frá hófsamari frjálshyggjumönnum.20
Þegar meta á hvort þessi leið sé líkleg til að tryggja mannrétt-
indi, nánar tiltekið frelsisréttindin, verður að hafa í huga að veru-
leg hætta er á að frjáls samtök á markaði breytist áður en varir í
harðsvíraða þrýstihópa. I stað handleiðslu ríkisins koma átök
19 Friedrich A. Hayek: Leióin til ánauðar. Hannes H. Gissurarson íslenzkaði.
Almenna bókafélagið - Félag frjálshyggjumanna. Reykjavík 1980, bls. 23, sbr.
bls. 38.
20 Hannes H. Gissurarson: „Er lágmarksríkið eitt réttlætanlegt?“ Frelsið 3
(1980), bls. 252-72. Þar gerir hann meðal annars grein fyrir riti Roberts
Nozick: Anarchy, State, and Utopia (Stjórnleysi, ríki og staðleysur), en í því
heldur Nozick fram kenningu markaðshyggjumanna. Hér má minna á að
kommúnistar litu á ríkið sem kúgunartæki ráðandi stéttar, en þegar verkalýðs-
stéttin hefði tekið ríkisvaldið í sínar hendur yrði þess ekki lengur þörf - það
dæi út - og mannkynið stykki úr ríki nauðsynjarinnar inn í ríki frelsisins.
Friedrich Engels: Þróun sósíalismans. - Hugsýn verður að vísindum. Karl
Marx og Friedrich Engels: Urvalsrit I. Heimskringla. Reykjavík 1968, bls.
118-21. W. I. Lenin: Ríki og bylting. Bókaútgáfa Heimskringlu. Reykjavík
1938, bls 8 o. áfr., einkum bls. 22 o. áfr. Öll hefur þessi kenning reynzt fjar-
stæða. „Útdauði ríkisvaldsins" snerist í illvíga harðstjórn. Hugmyndir mark-
aðshyggjumanna og kommúnista um að frelsa mannkynið undan ánauð með
því að afmá ríkisvaldið að mestu eða öllu leiðir augljóslega til kúgunar sem
annað hvort birtist í gervi stjórnleysis eða ofstjórnar.