Skírnir - 01.09.1995, Page 120
390
SIGURÐUR LÍNDAL
SKÍRNIR
alræðisins svífur enn yfir vötnum. Við því er brugðizt með því að
vísa til réttinda hvers og eins þjóðfélagsþegns.27 Víða í veröldinni
kann að vera nauðsynlegt að taka þannig á mannréttindamálum,
einkum í upphafi frelsisbaráttu, en ekki í ríkjum sem lengst eru
komin á braut lýðræðis, mannréttinda og velferðar. Linnulaus
áherzla á réttindagreinar er vísasti vegur til að splundra ríkjunum
og þá um leið að grafa undan mannréttindum. Þetta á óvíða betur
við en á Islandi þar sem ríkisvald er veikt.
Þar sem ríkisvald er á hinn bóginn öflugt og ágengt og helzt er
þörf á að halda því í skefjum sýnir reynslan að réttindagreinar
eru, þegar til lengdar lætur, furðu haldlitlar til að hamla gegn
ágangi valdsins og fá valdhafa til að gegna þeirri skyldu að virða
réttindi þegnanna. Vandkvæði eru á að orða þær svo að þeim sem
með ríkisvald fara - einkanlega löggjafarvald - séu reistar viðhlít-
andi skorður, þegar til kastanna kemur. Svigrúmi valdhafa eru því
lítil takmörk sett. - Dómstólar hafa löngum túlkað réttindagrein-
ar þröngt og fræðimenn ekki gert mikið úr þeim.28 Þess í stað
hafa menn sett allt traust á hið lýðræðislega aðhald og ekki gert
sér grein fyrir takmörkum þess.
Réttindagreinar hafa sefjunaráhrif á þjóðfélagsþegnana sem
eru þá vísir til að líta á þær sem hvatningu til að hafa uppi rétt-
indakröfur af ýmsu tagi, oftast á hendur „þjóðfélaginu“ eða „rík-
inu“, án þess að gera sér grein fyrir hvað það merkir. Réttinda-
kröfurnar verða mótsagnakenndar og sá sem skyldurnar ber lítt
sýnilegur eins og von er, því að þeir sem kröfur gera og hinir sem
skyldur bera eru oftast sömu þjóðfélagsþegnarnir. Sá sem tileink-
ar sér slík viðhorf er vís til að ýta allri ábyrgð frá sér, en oftast er
óljóst hvert.29
27 Poul Sieghart: The Lawful Rights of Mankind. Oxford University Press.
Oxford og New York 1986, bls. 43-44.
28 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun íslands. Önnur útgáfa. Gunnar G. Schram
annaðist útgáfuna. Iðunn. Reykjavík 1978, bls. 419 o. áfr.
29 Kröfur ríkisstarfsmanna til hærri launa, svo og kröfur einstakra þjóðfélags-
hópa til framlaga úr ríkissjóði eru öðrum þræði kröfur á hendur skattgreið-
endum sem að mestu leyti er sama fólkið þótt það beri ólíkar byrðar. Hags-
munabaráttan felur iðulega í sér kröfur eins þrýstihóps á hendur öðrum og sá