Skírnir - 01.09.1995, Qupperneq 151
SKÍRNIR
HVAÐ ER SANNLEIKUR?
421
rannsókn. Þó er þetta hvorutveggja býsna táknrænt fyrir þá um-
ræðu, sem gjarnan fer fram nú um stundir. Reyndar vill svo til að
í þessu sama Skírnishefti er önnur grein um svipað efni, „Sann-
fræði íslenskra fornleifa", eftir M. Phil. Adolf Friðriksson, og
koma þar fram nokkrar athugasemdir við grein dr. Bjarna, var-
færnar, en mjög athyglisverðar, að því er mér finnst.
„Það er enginn algjör“, þannig heyrði eg stundum kveðið að
orði, þegar eg var barn, og mun það rétt vera. Ollum mönnum
getur einhverntíma yfirsést, allir geta misskilið, gleymt eða jafn-
vel að meira eða minna leyti um sinn gengið á vit óheppilegra
skoðana. Þó er það trúa mín, að í hverju máli sé til hinn rétti
grunnur, hið upprunalega, sanna, þó það vilji dyljast okkur,
skammsýnu mannfólki. - Flest það sem gerist hverfur óhjá-
kvæmilega smátt og smátt í djúp fjarlægðarinnar og gleymskunn-
ar, það verður ekki öllu haldið saman. Og það sem helst lengur í
minni, verður sjálfsagt stundum að hlíta því að ýmsar tilviljanir
séu að verki um það hvað geymist til síðari tíma. En samt geta
sumar minningar orðið langlífar, einkum þegar eitthvað „sögu-
legt“ gerist.
Eg hef aldrei getað sætt mig við þá stefnu, að vilja treysta sem
minnst vitneskjunni, sem fornritin okkar geyma, jafnvel hafa þau
að engu sem heimildir - þetta er þó það upprunalegasta, sem nú
er til á þessu sviði, samofið og umlykjandi íslenskt mannlíf allt frá
elstu tíð. Og þrátt fyrir allt fela þessir textar í sér meiri „nánd“
við hina löngu liðnu atburði en annað sem fundið verður hér í
heimi. (Vera má að þarna mætti þó undanskilja fornminjar. En
ekki skil eg í öðru en að þær vilji verða erfiðar til skilnings, nema
einhver „sagnahyggja“ komi þar til aðstoðar.)
Því verður varla mótmælt, að hin fámenna, íslenska þjóð stæði
á ennþá meira berangri en nú er, ef hún hefði ekki átt þessar ein-
stæðu bókmenntir, sem eitt sinn voru skráðar á bókfell hér úti á
Islandi. Bókfell, sem síðar mátti bíða öldum saman í rökum og fá-
tæklegum hýbýlum hálf örbjarga þjóðar, og eitt sinn var því nær
fuðruð upp í þeim eldi, sem að nokkru leyti brenndi mestu borg
Norðurlanda til kaldra kola. - Samt bjargaðist nægilega mikið til
að geta borið höfundum sínum verðugt vitni.