Skírnir - 01.09.1995, Page 156
426
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
ingjar Rússlands síðarmeir ættir sínar og þar með keisararnir. Það
þykir þeim til sóma - vegna þess að Rússar tengdu Væringja
einna helst við frið og stjórnvisku - en ekki furor normannorum,
morð og rán víkinga eins og Irar gerðu og Frakkar.
Á Rússlandi hafa menn allt frá því um 1800 skipst í tvo hópa í
afstöðu sinni til Væringjasögunnar og skyldra heimilda - nor-
mannista svonefnda og andnormannista. Normannistar töldu
hiklaust að norrænir menn hefðu stofnað hið rússneska ríki. Þeir
vísuðu til annálanna, til fornleifafunda, til orðsifja og svo til þess
að mjög margir höfðingjar Rússlands framan af sögu heita nor-
rænum nöfnum: Olég (Helgi), Askold (Höskuldur), Igor (Ingv-
ar). Andnormannistar vildu túlka annála og fornar grafir með
öðrum hætti. Þeir lögðu áherslu á að norrænir menn hefðu komið
að slavneskum borgum í Garðaríki (í landi borga!). Þeir hafi verið
ekki ýkja fjölmenn sveit hermanna og kaupmanna sem hafi vissu-
lega sett svip sinn á rússneska sögu, en ekki með afgerandi hætti,
enda hafi þeir fljótlega runnið saman við heimamenn og tekið
upp tungu þeirra og siði. Deilur um þessi efni hafa staðið allt
fram á þennan dag og fræðimenn margra þjóða komið við sögu.
Þó má svo heita að um 1970 hafi komist á sæmilegur friður um
Væringjamál, öfgar hafa verið settar niður og sæst á það að báðir
flokkar hafi nokkuð til síns máls, enda sé tilkoma nýs ríkis langt
ferli þar sem margir þættir koma saman og verði gildleiki hvers
og eins seint metinn af nákvæmni.
Væringjamál urðu einatt að miklu hitamáli í Rússlandi vegna
harðrar togstreitu um það hvernig hver og einn gæti látið sögu
fyrri alda þjóna sínum pólitísku viðhorfum og markmiðum. Nor-
mannistar voru einatt þeir sem töldu sjálfsagt að opna glugga
Rússlands til vesturs, eins og Pétur mikli hafði gert, og greiða
ýmsum áhrifum leið þaðan. Andnormannistar voru rússneskir
þjóðernissinnar, hvort sem var á keisaratímanum eða á sovéttím-
anum. Þeir gerðu sem mest úr því að Rússar hefðu ávallt verið
sjálfum sér nógir og síst þurft á hjálp að halda frá Skandinövum
til þess að koma á fót eigin ríki. Þeim fannst „norðmannadellan"
móðgun við rússneskt þjóðarstolt, gott ef ekki einskonar landráð.
Svo mikið er víst að Væringjamálin eru helsta kveikjan að
áhuga Rússa á Norðurlöndum og þeim bókmenntaarfi sem varð-