Skírnir - 01.09.1995, Page 159
SKÍRNIR
NIÐJAR ÓÐINS, HETJUR OG SKÁLD
429
Rússneskir sagnaritarar lögðu og sitt af mörkum til þess að
normannisminn - sú skoðun að rússneska ríkið sé norrænt að
uppruna - yrði að einskonar opinberum sannleika í Rússlandi.
Áhrifamestur þeirra var höfuðskáld hins forrómantíska rússneska
sentímentalisma, Nikolaj Karamzín (1766-1826), en fyrsta bindið
af Rússlandssögu hans kom út árið 1816. Karamzín telur líklegt
að norrænir menn hafi staðið slövum framar á sviði kaupskapar
og framleiðslu, verið betur að sér um stjórnsýslu og gengur þar
lengra en margir þeir sem töldu að forræði norrænna manna hefði
fyrst og síðast byggt á vopnum þeirra og garpskap. Karamzín
tekur það líka trúanlegt að slavar hafi hrakið Væringja burt en
mátt iðrast þess síðar eins og segir í áðurnefndri annálsfrásögn;
bojarar (höfðingjar) þeirra hafi „snúið frelsinu til ógæfu, þeim
tókst ekki að koma á aftur fornum lögum og steyptu föðurland-
inu í hyldýpi hjaðningavíga. Þá er líklegt að þegnarnir hafi minnst
hagkvæmrar og friðsællar stjórnar Normanna: þörf fyrir frið og
farsæld skipaði þeim að gleyma þjóðarstolti" - og kalla yfir sig
höfðingja úr liði Væringja.10
Hinn opinberi og skáldlegi normannismi á sér margþætta
skýringu. Á öldinni átjándu tóku Rússar forræði af Svíum yfir
Eystrasalti, yfir norðrinu. Það er ekki út í hött að sjá í stílæfing-
um Katrínar og fleiri höfunda viðleitni til að fylgja þessum hern-
aðarsigrum eftir með því að sölsa undir sig eitthvað af menning-
ararfinum norræna í leiðinni. Þess ber jafnframt að gæta að slíkar
hneigðir finna sér stuðning í þeim skilningi ýmissa fræðimanna
(m.a. Mallets) að til hafi verið ein samfelld nordurmenning til
forna, sem náði yfir Rússland, Norðurlönd og allt til Skotlands
og Irlands. Ollu var dembt í eina kös: keltneskum strengleikjum í
anda Ossíans (sem þá var mjög í tísku), Eddukvæðum, heima-
mönnum í Valhöll, grenjandi berserkjum og bogatírum margefld-
um, Agli Skallagrímssyni og Bojan skáldi sem getið er um í
Igorskviðunni fornrússnesku, en hún fannst einmitt um þessar
mundir í klaustri. Ur þessari blöndu varð til undarlegur og skáld-
legur heimur sem furðumörg rússnesk skáld gerðu að sínum um
og eftir aldamótin 1800.
10 N. M. Karamzín: Prédaníja vékov. Moskva 1987, bls. 65.