Skírnir - 01.09.1995, Page 165
SKÍRNIR
NIÐJAR ÓÐINS, HETJUR OG SKÁLD
435
Látið huggast, hátt í skýjum þeir föllnu
drekka lifandi kossa ungra Valkyrja,
enni þeirra bera blóm í himnaveislum,
af dufti beina þeirra spretta sögur.
Látið huggast! Sverð yðar mun hefna hinna föllnu
og hvar sem neisti lífs vors slokknar
megi djarfur andi ólga allt til grafar
sem heillaskál í minni föðurlands vors.
Hér er mörgu hrært saman í skáldapotti: Valkyrjur Óðins meira
að segja orðnar líkastar húríum í Paradís Mahómets spámanns.
En samhengið skiptir mestu, vísanir í samtíðina. Kvæðið, sem ort
er þrem árum eftir ósigur Dekabrista, snýr sér beint til „útlaga
ættjarðarinnar" og hvetur þá til dáða. Lesandinn veit sem er að
skáldið er ekki að lifa sig inn í aðstæður flóttamanna frá Noregi
heldur frelsisvina í Síbiríu. Einmitt þess vegna er því svo mikið
niðri fyrir að það má varla yrkja.
Þegar horft er úr norðri á rússneskan skáldskap um aldamótin
1800 og fram eftir nítjándu öld skal því ekki gleymt, að sá finnur
„áhrif“ eða „textatengsl" sem leitar. Rússnesk skáld voru vita-
skuld meir með hugann við sína klassísku menntun, við Hómer
og Virgil, en við Egil og Snorra. Seifur og Hera og Herkúles voru
margfalt fyrirferðarmeiri í ljóðum þeirra en Óðinn, Frigg og Þór.
Engu að síður má af þessum dæmum ljóst verða, að norðrið bætti
miklu við myndforða rússneskra skálda og varð furðu drjúgur
þáttur í efnivið þeirra, sögutúlkun og skilningi á sjálfri þjóðarsál-
inni. A þetta m.a. við um jafn áhrifamikla menn og Derzhavín og
Batjúshkov.
Þessarar norðurtísku gætir hinsvegar lítið hjá höfuðskáldum
Rússa á rómantískum tíma. Hjá Púshkín og Lermontov er hún
fremur eins og nokkrir þræðir í vefnum en að gengið verði hik-
laust að henni í kvæðum þeirra og á hana bent. Tökum dæmi af
æskukvæði Lermontovs, Zhena sévera (Konan í norðri) frá árinu
1829. Þar segir frá dularfullri meyju (déva) sem birtist til forna í
klettum myrkralands og „skáld (skaldy) norðurskóga, gáfu henni
sína andagift". Með fylgir það Medúsu-þema í hárómantískri út-
færslu, að hver sá sem sér þessa dularfullu veru hlýtur að deyja,