Skírnir - 01.09.1995, Page 182
452
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
víkingaheim. Ekki er gott að vita hvaðan þessi hugmynd um
úrslitaáhrif keltneskra manna á íslenskar fornbókmenntir er kom-
in. Hitt er víst að þessi kenning Syromjatnikovs dregur dilk á eft-
ir sér inn í rússneskar bókmenntir: ljóðaleikinn Gondla eftir
Gúmíljov, sem síðar verður vikið að.
Fleiri þýðingar á fornum íslenskum textum birtast um þetta
leyti á rússnesku.41 Mestu munaði þó um fyrstu þýðingu Eddu-
kvæða í bundnu máli, sem hlaut verðlaun Rússnesku vísinda-
akademíunnar árið 1911 en kom ekki út fyrr en árið 1917, bylt-
ingarárið sjálft. Þýðandinn var kona, S. Svírídenko, og vill hún
fylgja sem best bragarháttum Eddukvæða. Hún reynir fyrst allra
að búa til (með misjöfnum árangri þó) rússneska stuðlasetningu. í
ítarlegum formála að Eddu kemur fram að Svírídenko er, eins og
Senkovskíj og Syromjatnikov, sannfærð um að andi norrænnar
hetjualdar hafi varðveist á Islandi og hvergi nema þar. Hún er,
eins og séra Sabínín, full ofurkapps í hrifningu sinni af viðfangs-
efninu. Þannig sér hún í Eddukvæðum „heilbrigt raunsæi, lífræna
nálægð við lifandi líf mannfólksins", enda beri þau (og íslend-
ingasögur) af bæði „þokukenndum" kristnum miðaldasögnum og
sagnaheimi annarra Germana.42 Svírídenko má ekki heyra það
nefnt að Eddukvæði séu undir verulegum kristnum áhrifum eða
að í þeim sé unnið úr grísk-rómverskum sögnum. Því ræðst hún
af hörku á Sophus Bugge og aðra sem aðhyllast „lántökuskólann“
svonefnda; hún er svo sannarlega postuli hinnar íslensku sér-
stöðu. Að hennar mati eru hin svokölluðu „kristnu áhrif“, t.d. í
niðurlagi Völuspár, seinni tíma viðbót sem stórspilla skáldskapn-
um. Hún finnur sér reyndar þá höfuðskýringu á reisn og ríki-
dæmi íslenskra fornbókmennta að Islendingar hafi sloppið lengur
41 Starshaja Edda. 1897 (Eddukvæði í óbundnu máli) og Drevnesévernyje sagi í
pésni skaldov. 1903 (Ólafs saga Tryggvasonar stytt 1 þýðingu Sabíníns, Ey-
mundar saga 1 þýðingu Senkovskíjs, Eiríks saga rauða í þýðingu Syromjatni-
kovs, Finnboga saga ramma í þýðingu Bitjúkovs og að auki þýðingar á Höf-
uðlausn Egils, Krákumálum og þjóðkvæðum frá Skandinavíu. Báðar þessar
bækur komu út í Sankt-Peterbúrg í flokki sígildra verka í alþýðlegum útgáf-
um.
42 Edda. Skandínavskíj epos. Þýðing, inngangur og skýringar eftir S. Svirídenko.
Moskva 1917, bls 15.