Skírnir - 01.09.1995, Page 208
SKÍRNISMÁL
Er gagn að skáldskap ?
FYRIR FIMM ÁRUM birti Páll Skúlason prófessor grein í Skírni
(haust 1990) og nefndi „Spurningar til rithöfunda". Var honum
greinilega í mun að fá höfunda til að koma frammá ritvöllinn og
tjá sig um eigið sköpunarstarf og tilgang fagurbókmennta. Tveir
af okkar fremstu rithöfundum, Guðbergur Bergsson og Álfrún
Gunnlaugsdóttir, tóku áskoruninni með löngu millibili og birtu
greinar í Skírni (haust 1991 og haust 1994). Grein Guðbergs, „Er
skáldsagan leið til hjálpræðis?“, er almenn hugleiðing um hlut-
verk og hlutskipti góðra og óháðra höfunda, en grein Álfrúnar,
„Að blekkja og blekkja ekki“, er tilraun til að koma til móts við
Pál, þó höfundur játi „að ekki [sé] unnt að svara spurningunum
sem Páll varpar fram“. Þær eru á þessa leið:
Takist þið [rithöfundar] raunverulega á við það verkefni að vinna úr
reynslu mannfólksins og móta nýjan sjálfsskilning og skilning á heimin-
um við mótsagnakenndar aðstæður samtímans? Eða er með öllu óviðeig-
andi að vænta þess að þið sinnið þessu verkefni? (bls. 433)
Greinar þeirra Guðbergs og Álfrúnar voru sem vænta mátti um-
hugsunarverð innlegg í umræðuna um hlutverk og gagnsemi eða
gagnsleysi fagurbókmennta. Niðurstaða Guðbergs var þessi:
Rithöfundur sem er undir sínu oki hugsar hvorki um þarfir né skyldur,
hann berst áfram eins og rafstraumur við núning, leiddur af siðferðis-
vandamáli orðanna, eftir að skáldskapurinn er horfinn af sviði hins
hreina niðs og kominn á svið bókstafa og orða. Hann er svo óháður að
sökum þess rafmagns sem fæst við núning fegurðarskyns hans við samfé-
lagið eða annað getur hann látið ljót orð vera í skáldskap sínum innan
um hina mestu fegurð. Enda er það siðferðislega rétt, listrænt séð að
hans mati, þótt siðleysi væri talið eða smekkleysa að nota slík orð við
svipaðar aðstæður í daglegu lífi. (bls. 449)
Á öðrum stað í greininni segir Guðbergur: „Það er hvorki hægt
að færa daglegt líf inn í skáldskap né skáldverk inn í lífið. Andi
listaverks og andi mannlegs lífs eru ólíkir andar en skyldir að því
Skírnir, 169. ár (haust 1995)