Skírnir - 01.09.1995, Page 210
480
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
Afþreying og mdlrækt
Afþreying er tvímælalaust einn þeirra þátta mannlífsins sem telj-
ast nauðsynlegir jafnt andlegum sem líkamlegum velfarnaði
manneskjunnar, og er þar þegar nefnt eitt af hlutverkum skáld-
skapar: hann veitir lesendum kærkomna hvíld frá amstri og
áhyggjum daglegs lífs. Að vísu er afþreying langtífrá höfuðhlut-
verk skáldskapar, en í ákveðnum greinum fagurbókmennta virð-
ist hún sitja í fyrirrúmi, til dæmis í spennusögum og gamanskáld-
skap, og ekkert nema gott um það að segja. Alvarlegur skáldskap-
ur á vitaskuld miklu veigameira hlutverki að gegna, en auðnist
honum ekki að veita lesendum afþreyingu samhliða öðru sem
hann miðlar, þá vantar í hann gildan og nauðsynlegan þátt. Hitt
er svo annað mál, sem kannski er ástæða til að árétta, að afþrey-
ing getur verið með margvíslegu móti og er ekki endilega bundin
spennu eða gamanmálum.
Annar þáttur sem þarflaust er að setja undir mæliker er mál-
rækt rithöfunda. Hún er í reynd bæði meðvituð og ómeðvituð
viðleitni við að styrkja sjálfa líftaug þjóðarinnar. Óneitanlega
voru framtíðarsýnir skáldanna á síðustu öld ímyndunarafli þjóð-
arinnar örvandi og frjóvgandi, og ekki síður lýsingar þeirra á
þessu harðbýla landi sem við lærðum að dá og elska, en það var
meðferð móðurmálsins, endurnýjun þess og nýsköpun, sem var
þeirra stórfelldasti og varanlegasti skerfur til óborinna kynslóða.
Þessari viðleitni hefur ekki linnt á öldinni sem senn er á enda
runnin, og hún mun að sjálfsögðu halda áfram meðan menn
leggja sig niður við að tala og skrifa íslenska tungu. Rithöfundar
gera fátt annað daginn langan - og stundum líka næturlangt - en
rækta tungu feðranna, slípa hana og fægja, teygja hana og sveigja,
endurnýja hana og auka henni frjómagn, styrk og blæfegurð.
Endaþótt málrækt sé ekki þungamiðjan í sköpunarstarfi rithöf-
unda, er hún svo samfléttuð öllu sem þeir aðhafast, að nýsköpun
bókmenntanna er um leið í meira eða minna mæli nýsköpun
tungunnar.