Skírnir - 01.09.1995, Page 212
482
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
öðrum orðum lagðir ólistrænir mælikvarðar; gagnsemi þeirra til
áróðurs og skoðanamyndunar var höfuðatriði. Reyndar átti þetta
viðhorf sér frumkvöðla í mönnum einsog Platoni á fjórðu öld
fyrir Kristsburð, sem vildi banna tilteknar tegundir lista, og þó
einkum rússneska skáldjöfrinum Leó Tolstoí á síðustu öld, sem
hafði á efri árum mjög ákveðnar skoðanir á æskilegri og óæski-
legri list og taldi meginhluta allra lista vera óæskilegan og beinlín-
is skaðsaman.
Onnur kenning heldur á loft þeirri hugmynd, að „merking"
listaverks eigi sér enga hliðstæðu eða samsvörun í annarri mann-
legri reynslu. Það sé heimur útaf fyrir sig, sem eigi sér að vísu
rætur í umhverfi höfundarins, en umskapi veruleikann og geri úr
honum eitthvað glænýtt og eðlisóskylt öllu öðru. Skáldverk verði
einungis lesið á sínum eigin forsendum, að sínu leyti einsog menn
njóta tónsmíðar, og fráleitt sé að ætla því annað hlutverk en þá
listrænu upplifun sem það færi lesandanum. Til að finna merk-
ingu skáldverks verði að einbeita sér að því sjálfu og leita uppi
þær eigindir sem gera það að sköpunarverki. Formhyggjumenn
svonefndir neita því ekki að mörg listaverk hafi að geyma tilvís-
anir til umheimsins, en þeir leggja ríka áherslu á, að slíkar tilvís-
anir séu með öllu óviðkomandi eiginlegri merkingu verksins.
Ekki sé til dæmis hægt að finna neina samsvörun milli fegurðar
sem við nemum í umhverfi okkar og fegurðar sem listaverk býr
yfir.
Bæði tilvísunarhyggja og formhyggja hafa komið fram í
margskonar tilbrigðum, og báðar hafa þær nokkuð til síns máls.
En í sínum öfgafyllstu myndum eru þær ósættanlegar um skiln-
ing á eðli og tilgangi skáldskapar og annarra lista. Önnur heldur
fram fullkomnum framandleik listsköpunar; hin telur alla þá list
ótæka sem ekki hafi hagnýtu hlutverki að gegna. Eg get fallist á
þá skoðun raunsæismanna að efni listaverks hafi áhrif á form
þess, og að list og tilfinning séu nátengdar. Hitt finnst mér liggja í
augum uppi, að listaverk geti verið gersneytt „efni“ eða að
minnstakosti gengið lengra en efniviðurinn sem liggur því til
grundvallar. Eg er líka þeirrar skoðunar, að fagurfræðileg upplif-
un sé ekki samkynja venjulegum tilfinningum; að gildi listaverks
sé og verði jafnan fyrst og fremst fagurfræðilegt.