Skírnir - 01.09.1995, Side 214
484
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
Sé það rétt að reynsla af listaverki auki mönnum innsæi í hug-
lægan veruleik mannlífsins, þá má líta á listir sem eina leið til
sjálfsskilnings, leið sem geri okkur fært að kanna, skýra og skilja
skynjun mannsins d eigin eðli. Um þetta tiltekna efni hafa ýmsir
fræðimenn notað mismunandi hugtök, svosem „sjálfssamræm-
ing“ Qohn Dewey), „einstaklingsvitund" (Carl G. Jung), „per-
sónuleg sjálfsímynd" (Susanne K. Langer), „raungerving sjálfs-
ins“ (Abraham H. Maslow) og „samþætting persónuleikans"
(Paul Tillich). Oll vísa þessi hugtök til mannúðaráhrifa sjálfs-
þekkingar. Til eru fá djúptækari verðmæti en einmitt þetta. Listin
er tvímælalaust máttugasta tæki mannsins til að skíra og dýpka
tilfinningareynslu sína.
Listrœn sköpun og boðskipti
Það sem skilur listaverk bæði frá öðrum manngerðum hlutum og
fyrirbærum náttúrunnar er, að líta má á þá fagurfræðilegu eigin-
leika, sem verkið býr yfir og birtir, sem meginforsendu fyrir til-
vist þess. Listræn sköpun er ekki fólgin í því að búa til eitthvað
sem gefi til kynna hvernig höfundinum leið á tilteknu andartaki
eða skeiði. Ekki er um það að ræða að „losa sig við“ eða „fá út-
rás“, heldur að „leysa af hendi“ tiltekið listrænt viðfangsefni.
Hér er nærtækt að bera saman boðskipti og listræna sköpun. í
boðskiptum er fyrir hendi ákveðinn boðskapur, upplýsingar,
skoðun, tilfinning eða skipun, sem komið er frá einum aðila til
annars með tilteknum táknum (orðum, punktum, strikum, lík-
amshreyfingum o.s.frv.). Það sem einkum skilur listræna sköpun
frá boðskiptum er, að listamaðurinn hefur enga „kenningu“ fram
að færa. Undirrót sköpunarinnar er meira eða minna óljós „hvöt“
eða „löngun“, sem oft er tengd leiftrandi hugmynd vakinni af at-
viki, orðasambandi, laglínu eða litasamstæðu. Hver sem „hvötin“
kann að hafa verið, er ekki um að ræða skilgreindan boðskap,
heldur óræða frumhugmynd sem býr yfir vaxtarmöguleikum og
getur þróast í óvæntar áttir. Listræn sköpun er í eðli sínu könnun
á möguleikum tiltekinnar listgreinar til að raungera huglægan
veruleik. Maðurinn á engan kost annan til að kanna svið tilfinn-
inganna en þann að grafast fyrir um tilfinningalegar eigindir