Skírnir - 01.09.1995, Síða 220
490
RÚNAR HELGI VIGNISSON
SKÍRNIR
annað fólk á skömmum tíma. Sjómaðurinn á þess því ekki kost að taka
þátt í menningarlífi þjóðarinnar af sama þrótti og landkrabbinn og
vinnuaðstaðan torveldar honum að stunda ritsmíðar á frívöktum. I huga
landkrabbans er sjómaðurinn því varla annað en mýta.
Fjarvera sjómannsins endurspeglast ekki aðeins í umfjöllun fjöl-
miðla. Miðað við vægi starfsins í þjóðarbúskapnum hefur ótrúlega lítið
verið fengist við veruleik þeirra og gildir þá einu hvort um félagsvísindi1
eða skáldskap er að ræða. Helst er að finna frásagnir af þeim í anda
alþýðlegra sagnaþátta og endurminninga, en aðeins örfá skáldverk prýða
hillur landsmanna. í þessari grein er ætlunin að fjalla um nýlegar íslensk-
ar skáldsögur sem hverfast alfarið um sjómennsku.
Borgir hafsins
íslenskar sjóarasögur eru ótrúlega keimlíkar. Það liggur við að þær séu
allar tilbrigði við sömu stofngerðina: Ungur maður fer til sjós, gjarnan
skólastrákur, verður sjóveikur, lendir í fiskiríi og óveðri og hlýtur
þannig sína manndómsvígslu, slarkar með strákunum í landlegu og nær
sér loks í stúlku ef veigur er í honum. Þetta er erkitýpískt mynstur, til-
brigði við gamla góða ævintýrið. Þarna mætir maðurinn náttúrunni nak-
inni, ófreskjunni sem hetjan verður að sigrast á til að hreppa konungs-
dótturina.
Þessa sér stað í skáldsögu Njarðar P. Njarðvíks, Hafborgu, sem ger-
ist á ísfirskum nýsköpunartogara um miðja öldina. Sögumaðurinn er ný-
græðingur á togaranum og þar að auki skólapiltur. Þannig tekst Nirði að
tefla saman andstæðum á sígildan hátt, auk þess að lýsa erkitýpískri
manndómsvígslu eða skírn. Höfundi hefur samt ekki þótt fyrstu-
persónufrásögnin gefa nógu glögga mynd af lífinu um borð, því hann
brýtur meginmálið upp með köflum skrifuðum í þriðju persónu. Við
fáum þannig að sjá í hug fjögurra annarra lykilpersóna: Stefáns, sem
stríðir við sína ungu konu, Hannesar, sem slasast þegar brotsjór ríður
yfir togarann, Ingólfs skipstjóra, sem hefur lent í strandi og misst menn,
og Ananíasar bátsmanns, sem hefur leyst úr hjónabands- og drykkju-
vandræðum sínum með fulltingi kristinnar trúar.
Stefáni er gert hæst undir höfði, við fáum þrjá sérstaka kafla um hann
meðan hinir fá sinn hver, enda eru sérstök tengsl milli Stefáns og sögu-
manns. Kona Stefáns hefur daðrað smávegis við sögumann, kysst hann
reyndar, rétt eins og þeir Stefán séu að sumu leyti sami maðurinn.
Þannig hugsar sögumaður í upphafi bókar:
1 Ekki má þó gleyma hinum sjaldséða hvíta hrafni. Þar skín skærast rit Gísla
Pálssonar mannfræðings, Sambúð manns og sjávar, sem kom út hjá forlaginu
Svart á hvítu árið 1987. í bókinni er fjallað um ýmsar hliðar sjómennsku og
sjávarútvegs, m.a. fiskni.