Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 228
498
RÚNAR HELGI VIGNISSON
SKÍRNIR
eiturbrasari, sem kemur fyrir í Hjartasalti, er skemmtilegt dæmi um það
- þarna er komið sjóaramál sem Þórbergur Þórðarson gerði frægt í
Ofvitanum. Alkunna er að sumir sjómenn lesa drjúgum, en þó er oftar
en ekki dregin upp mynd af sjómanninum sem bóklausum manni, eins
og heimur menntamannsins og sjómannsins samrýmist ekki. Hér er til
dæmis tilsvar hásetans Adda á Hafborgu: „Hvern andskotann heldurðu
að ég lesi, sagði hann. Heldurðu kannski að lífið sé til að lesa um það? Af
hverju lestu þá ekki um togarasjómenn í staðinn fyrir að fara á togara?“
(45). Svar sögumanns, sem er auðvitað ekki dæmigerður togarajaxl,
bendir aftur á móti til að honum finnist heimarnir tveir samtvinnaðir:
„Eg sagði honum að það væri af því, að ég fengi ekkert kaup fyrir að lesa
um togara, og ég þyrfti kaup til að geta haldið áfram að lesa“ (45).
Ingólfur skipstjóri á Hafborgu, sem annars er fámáll og harður af sér,
tekur upp á því að syngja ljóð í óveðrinu, sögumanni til mikillar undrun-
ar: „Enn ertu fögur sem forðum, / þótt forlögin skilji / okkur sem ástvini
dauðinn", syngur hann meðal annars og notar þannig viðkvæma ljóðlist-
ina, vettvang tilfinningatjáningar, sem meðal við ofsa náttúrunnar. í
Múkkanum kemur Njála einu sinni inn í umræðuna og sýnir enn á ný
skilin milli heimanna tveggja þegar einn hásetanna spyr: „Hvaða Skarp-
héðin eruð þið að tala um? Var hann hérna um borð?“ (121). I skáldsögu
Baldurs Gunnarssonar, Með mannabein í maganum, er skáldamálið
stundum tvinnað saman við meginmálið, þannig að spenna myndast milli
groddaralegs lífsins um borð og fágaðs tungumálsins, og næst þá sérstæð
sambreiskja milli lands og sjávar:
Oldur lyftust og brotnuðu, faldar féllu í löðri sem minnti á sjóðandi
mjólk, strókar risu yfir lunninguna og dreifðust um dekkið líkt og
ósýnilegur laumufarþegi tiplaði þar sem snöggvast. Eitt andartak
skaut tunglið láréttum geisla milli ölduhæðanna og hvarf. Þeir göl-
uðu aftur. Eflaust töldu þeir mig fífl. (18)
Stundum er um beinar tilvísanir í skáldverk að ræða hjá Baldri og verður
þá málfærið enn upphafnara: „Á sjónum þarf enginn að velkjast í vafa
hvort betur sæmi að þreyja þolinmóður eða grípa vopn gegn bölsins
brimi. Hafið heimtar tafarlaus viðbrögð og verkið skal unnið af fullum
trúnaði" (54). Þarna er Hamlet kominn út á sjó með tilvistarspurningu
sína og má heita víst að hans nótar mundu ekki kemba hærurnar í þessu
umhverfi. Næsta skáldlegt tungutak sögumanns virkar þó ekki alltaf
sannfærandi sem talmál, eins og ofangreind dæmi bera með sér, og er það
hængur á annars skemmtilegu stílbragði.
I Hjartasalti Guðlaugs Arasonar er öðru skáldi, Davíð Stefánssyni,
lyft í öndvegi: