Skírnir - 01.09.1995, Síða 240
510
ÁRNI IBSEN
SKÍRNIR
Ásta Ólafsdóttir (önnur og þriðju verðlaun), Harpa Arnardóttir, Sindri
Freysson, Kjartan Árnason, Illugi Jökulsson, Elísabet Jökulsdóttir og
Þorvaldur Þorsteinsson.
Fáir hafa lagt meiri rækt við örleikritsformið en Kjartan Árnason,
sem hefur á undanförnum árum sent frá sér nokkur slík verk. Hefur út-
gáfa þeirra verið í góðu samræmi við smæð formsins því verkin hafa ver-
ið gefin út stök sem Smáprent Orlagsins. Sá sem þó hlýtur að teljast
frumkvöðull í þessari bókmenntagrein hérlendis er Sigurður Pálsson. I
fyrstu ljóðabók sinni, Ljóð vega salt (1975), birti hann fjögur smáverk
sem hann kallaði „Örstyttur (ljóð fyrir svið: leiksvið og leikrými)“, og í
Ljóð vega gerð (1982) birti hann fjórar „Talmyndastyttur (stuttar tal-
myndir)“, ljóð fyrir svið samin á árunum 1972-1981. Þessi verk Sigurðar
eru raunar myndrænni en venjulegur leiktexti og að því leyti ef til vill
skyldari nafntoguðustu jaðarlistgrein sjöunda áratugarins, bræðingi
myndlistar og leiklistar, hinum svo nefndu „uppákomum" (happenings).
Verk Sigurðar má jafnvel kalla frásagnir af óhugsandi leiksýningum.
Sömu ættar eru „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap", sem
skáldið birti í bók sinni Ljóð námu völd (1990), en þær eru leiðarvísar
um uppákomur sem lesandinn gæti staðið fyrir.
Þegar tímaritið Bjartur og frú Emilía hóf að kynna örleikrit hér á
landi var fyrirbærið áreiðanlega lítt þekkt, en nýtt var það ekki og var
þegar til 80 til 90 ára gömul örleikritahefð í Evrópu. Þannig ólu leik-
húspælingar ítölsku fútúristanna af sér sintesu-leikhúsið á öðrum áratug
aldarinnar og voru hinir ítölsku lista-ólátabelgir iðnir við að semja ör-
leikrit sem aðeins tók nokkrar sekúndur að leika. Þýsku expressionist-
arnir sinntu forminu einnig dável og Dada, alþjóðlega listahreyfingin í
Zurich á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, ól líka af sér urmul örverka í
leikformi. Allar þessar listahreyfingar voru að leita leiða út úr hinu rök-
fasta og hamlandi samhengi vestrænnar menningar.
Ef til vill urðu fyrstu kynni okkar Islendinga af evrópskum örverk-
um í gegnum hinar svo nefndu „mínútusögur“ ungverska leikskáldsins
Iztváns Örkény. Þegar Leikfélag Reykjavíkur sýndi kunnasta verk hans,
Það er kominn gestur, árið 1970 voru nokkrar „mínútusögur“ hans
prentaðar í leikskrá, dularfullar en ögrandi og oft fyndnar anekdótur af
þeirri tegund sem gjarnan uxu upp af leyndum hugsunum þegnanna í al-
ræðisríkjunum í austanverðri Evrópu. Örverk þess tíma í þeim heims-
hluta voru gjarnan ögrun við ríkjandi hugmyndafræði, en jafnframt svo
óræð að ekki var talið óyggjandi að innihald þeirra og boðskapur varð-
aði við refsilög ríkisins. Slíkur skáldskapur gat því dafnað vel undir al-
ræði en þó utan seilingar þess.
Loks er vert að gefa því gaum að á níunda áratugnum birtust í tíma-
ritum og bókum hér á landi þýðingar á stuttum prósaverkum eftir
nokkra erlenda smáverkameistara, t. d. þá Franz Kafka (Tímarit Máls og
menningar, 3. hefti 1983 og 10. hefti af Bjarti og frú Emilíu, 1993) og