Jón á Bægisá - 01.10.2009, Qupperneq 13
Þýðandi þjóðarinnar
Öllum þessum verkum, sem vel standa undir einu, ef ekki fleiri ævi-
störfum, sinnti hann meðfram fullri vinnu og þölskyidulífi án styrkja og
opinbers stuðnings og gæti ég ímyndað mér að færi um margan þýðand-
ann, rithöfundinn eða fræðimanninn sem annað eins væri sett fyrir í upp-
hafi ferilsins með sömu skilyrðum. En þar kemur kannski í ljós munurinn
á afreksmanni og okkur hinum.
En þýðandi þjóðarinnar, er þetta ekki aðeins þægilega stuðluð sam-
setning tveggja orða, sem sjaldnast eiga saman þótt samstofna séu? Það
sýndi sig í bókmenntasögunni að mikilvirkasti þýðandi hennar nánast
hvarf ásamt mörgum öðrum í þjóðlegum niði fljótsins sem kallað hefur
verið þjóðarbókmenntir og hver þjóð sem til þjóða vill teljast finnst hún
eiga einstakar og það felur í sér útilokun erlendra bókmennta, jafnvel þótt
þýddar séu. Það hefur a.m.k. verið þróunin á Vesturlöndum, til hafa orðið
breskar bókmenntir, danskar bókmenntir, franskar, þýskar og svo mætti
lengi telja, allt sérstæðar bókmenntir með sína eigin sögu ef marka má
bókmenntasögur og heilu fræðigreinarnar við þúsundir háskóla um allan
heim. Samhliða þessari þróun, sem er alls ekki eins gömul og margir ætla,
varð til hugmynd um haf heimsbókmennta þar sem fljótin hafa runnið
saman í eina ægivíðáttu. Það má kannski teygja myndina lengra og velta
fyrir sér hlutverkum þeirra silunga sem staðbundnir eru og laxanna sem
synda til hafs til að ná sér í æti áður en þeir snúa aftur til að hrygna að
nýju í heimaánni sinni.
Hugmyndin um heimsbókmenntir hefur oftast verið skrifuð á skáld-
ið, þýðandann og fræðimanninn Johann Wolfgang von Goethe sem taldi
heimsbókmenntirnar vera að leysa þjóðarbókmenntir af hólmi þegar árið
1827 og sýnir það kannski að ekki eru jöfrar andans alltaf spámannlega
vaxnir. Mig langar þó að skjóta því að í framhjáhlaupi að hugmyndin
um heimsbókmenntir er allmiklu eldri og svo skemmtilega vill til að hún
tengist íslenskum bókmenntum beint. Það var nefnilega þýski átjándu
aldar sagnfræðingurinn August Ludwig Schlözer í Göttingen sem hugs-
aði þetta á undan Goethe og það árið 1773, ári áður en sá síðarnefndi gaf
út Werther sinn og varð frægt ungskáld á einni nóttu. Það var í lítilli bók
sem heitir Islándische Litteratur und Geschichte þar sem því var líkast til
fyrst haldið fram að til væri eitthvað sem heitir heimsbókmenntir og að
íslenskar bókmenntir heyrðu til þeirra. Það gerðist í kjölfar þýðinga á
þeim á erlend mál og eftir það urðu þær æ oftar þýddar, því það má telja
vera hlutverk þýðinga innan heimsbókmenntanna að gera þær yfirleitt
kleifar. Þannig urðu jaðarbókmenntir Islendinga að heimsbókmenntum,
fyrir tilstilli þýðinga, jaðarinn hreyfðist inn að miðju eins og Ástráður
Eysteinsson hefur túlkað það í grein sinni „Jaðarheimsbókmenntir" í Jóni
á Bægisá (8. hefti, 2004).
á Jffiœyúá — af og frá, ég kann ekki nokkurt erlent tungumál
11