Jón á Bægisá - 01.10.2009, Qupperneq 120
Suzatia Tratnik — Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
Frekur strákur
Við Vera sitjum framan við þorpskrá ekki langt frá Ljubljönu. Þetta er
síðdegis á laugardegi. Eg er í stuttbuxum og stuttermabol. Við súpum öl-
kelduvatn. Heitt er í veðri því þetta er í júní. Fyrir eitthvað fjórum árum.
Gæjar sitja við næsta borð. Þeir eru fullir og láta illa. Borðið er fullt af
bjór- og vínflöskum. Gengilbeinan hirðir þær ekki; lætur sigurtákn þeirra
vera.
Ég reyki og rövla við Veru. Læt sem ég sjái hvorki gæjana né sig-
urvinninga þeirra. Eins Vera. Við minnumst ekki á þá einu orði, látum
sem þeir séu ekki þarna.
Þá nálgast sá yngsti þeirra, svona sautján og hálfs árs, á leiðinni á
klósettið. Hann riðar, grípur í stóla, borð, girðinguna til stuðnings. Hann
styður sig við stólbakið mitt. Ég þykist ekki sjá, sný mér ekki við.
„Hey, stráksi!"
Kallar sá elsti til hans, svona þrjátíu og átta. Fyrir framan hann er
lengsta flöskuröðin. Líklega er því fleira við hann af lengstu gerð. Stráksa
kallar hann þann sem hallar sér að stólnum mínum. Við Vera þögnum.
Lítum hvorki upp né á hvor aðra.
„Hvað?“ spyr Stráksi bak við mig.
„Biddu afsökunar,“ skipar Lengsti. „Þú rakst þig í stólinn hennar.
Svona gerir maður ekki.“
„Æ, já,“ segir Stráksi. „Fyrirgefðu."
Hann leggur hönd sína á öxl mér. Ég lít ekki við. Horfi á Veru.
„Þetta er í lagi,“ segi ég. „Fínu lagi.“
Ég beini orðum mínum að Lengsta, þar sem ég veit að strákurinn er
aukaatriði.
„Fyrirgefðu,“ endurtekur Stráksi.
Hann andar niður hálsinn á mér.
„Ekki biðja hana,“ segir Lengsti og hækkar röddina. „Biddu hann
afsökunar.“
Og Stráksi biðst enn afsökunar, og beinir orðum sínum til hans —
Veru.
„Allt í góðu,“ segir Vera.
Hún beinir orðum sínum einnig yfir á borðið til Lengsta. Við ókeyj-
um aftur og aftur, fyrir friðinn, svo þessum leiðindum sé lokið.
„Fyrirgefðu félagi,“ segir stráksi við Veru.
Nú hallar hann sér yfir mig, ég óttast hann falli, brjóti heimskan haus-
inn og úði yfir mig blóði. Þá munu þeir biðjast afsökunar næstu öldina.
„Mér þykir leitt að hafa rekist utan í konuna þína félagi,“ segir Stráksi
og staulast loks í áttina að baðherberginu.
118
á - Tímarit um þýðingar nr. 13 / 2009