Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 62
61
Í ljósi þess að viðtakið er ofið inn í lífshætti ætti að vera skiljanlegt
hvers vegna það er þungamiðja vísindalegrar þekkingar (lífshættir eru jú
„hið gefna“, að mati Wittgensteins). Einnig ætti áhersla Wittgensteins á
iðju og æfingu að skýra hvers vegna Kuhn talar eins og iðjan móti reynsl-
una fremur en kenningar. Samkvæmt greiningu Wittgensteins er breytni
miðlægur þáttur í málbeitingu og þar með í viðtökum eins og Kuhn sér
þau. Wittgenstein leit svo á að hugtakið um mál væri það sem hann kall-
aði „fjölskylduhugtak“. Það þýðir meðal annars að þótt við getum beitt
hugtakinu rétt án nokkurrar fyrirhafnar er ekki hægt að finna bæði nauð-
synleg og nægjanleg skilyrði fyrir beitingu þess. En það er ættarmót með
þeim fyrirbærum sem fella má undir fjölskylduhugtök. Við getum skýrt
það með því að hyggja að ættarmóti systkina: Jón hefur kannski sama
háralit og Anna, systir hans. Hún kann að hafa söðulnef eins og Haraldur
bróðir hennar sem aftur er bláeygur eins og Jón. Systkinin hafa engan
sameiginlegan útlits-„nefnara“, heldur er um ræða knippi af útlits-eig-
inleikum sem eru algengari hjá þessum systkinahópi en flestum, jafnvel
öllum, öðrum slíkum hópum. Hið sama gildir um fjölskylduhugtökin en
það gerir þau ekki óskýrari en önnur hugtök. Til eru reipi sem gerð eru
úr mörgum minni reipum. Slíkt reipi getur verið firnasterkt þótt enginn
rauður þráður sé í því, enginn þráður sem gengur gegnum allt reipið.
Svipað gildir um málbeitingarhætti. Þeir verða ekki dregnir upp á einn
seil, fremur en systkinin þrjú. Samt eru þeir í himnalagi rétt eins og reipið
sterka. Málið samanstendur af laustengdum málleikjum sem skarast víða.
Það er ættarmót með þeim.51 Þetta þýðir að málið með stórum staf er ekki
til. Samt getum við beitt hugtakinu um mál án teljandi erfiðleika, rétt eins
og reipinu haldgóða.
Kuhn segir sjálfur að ýmis af hugtökunum sem varða rannsóknarvanda
vísindanna séu fjölskylduhugtök.52 Þótt hann segi það ekki beinum orðum
má draga þá ályktun að viðtak sé vísindalegur málleikur, vísindin með
stórum staf séu ekki til, bara safn laustengdra viðtaka. Hann telur að vís-
indin séu aðeins til í fleirtölu, þau séu flókin en ókerfisbundin formgerð.
Þau séu ekki mónólítísk, þau lúti ekki einni, gefinni aðferð.53 Það fylgir
sögunni að breski vísindaheimspekingurinn John Dupré hefur sett fram
51 Sama rit, bls. 31–32 (§65–§67).
52 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 45, Thomas Kuhn, Vís-
indabyltingar, bls. 137.
53 Thomas Kuhn, „The Trouble with the Historical Philosophy of Science“, bls.
119.
ViðTöK OG VÍSiNDi