Saga - 2012, Blaðsíða 12
Í þessu samhengi er auðskilið að Guðjón hafi fundið sig knúinn
til að finna Íslandi nýjan þjóðlegan byggingarstíl í anda þjóðernis-
rómantíkur. Í því skyni grípur hann til erlendra fyrirmynda, og má
greina áhrifin frá þeim einkar vel í elstu uppdráttum hans og bygg-
ingum.
Hornsteinn að miðbæ með borgarbrag
Bygging Nathan & Olsen eftir Guðjón Samúelsson markar einnig frá
skipulagssjónarmiði þáttaskil í þróunarsögu miðbæjarins.
Fram að brunanum mikla 1915 höfðu flestar byggingar í Kvos -
inni verið stakstæð timburhús, flest einnar til tveggja hæða.10 Slíkt
hús hafði einnig staðið á lóðinni Austurstræti 16: Árið 1831 var reist
þar einlyft timburhús, sem síðar var stækkað í áföngum. Pétur
Péturs son, prestaskólakennari og síðar biskup, eignaðist húsið 1847
og lét stækka það til muna, enda hýsti það skrifstofu biskupsemb-
ættisins í hans biskupstíð. Frá 1891 var í húsinu „Enska verslunin“
svonefnda, en árið 1905 keypti Thor Jensen það og rak þar versl-
unina „Godthaab“.11
Húsið eyðilagðist svo, eins og fleiri timburhús í Kvosinni, í brun-
anum mikla sem upp kom í Hótel Reykjavík, við Austurstræti 12,
aðfaranótt 25. apríl 1915.12 Eftir það var í raun bannað að byggja ný
timburhús í miðbænum. Eftirspurn viðskiptalífsins eftir miðbæjar-
húsnæði jókst á hinn bóginn stöðugt, og var því við endurreisnina
gripið til þess ráðs að byggja úr steinsteypu og með nýrri bygging-
arskipan — þrí- og fjórlyft hús sambyggð út að götu — sem þýddi
nýja gerð verslunarhúsnæðis. Með þessu varð miðbærinn þétt-
byggðari og með meiri borgarbrag, varð sannkallaður „steinbær“
eins og það heitir í blaðafyrirsögn 1915.13
Guðjón Samúelsson hefur þó annað og meira í huga en þær
almennu aðstæður í bænum sem hér hefur aðeins verið tæpt á; með
atli magnús seelow12
10 Yfirlit um þetta efni, sjá Hjörleifur Stefánsson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir
og Guðmundur Ingólfsson, Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur (Reykja -
vík: Torfusamtökin 1987), bls. 35–66.
11 Sjá Páll Líndal, Reykjavík. Sögustaður við Sund I. Ritstj. Einar S. Arnalds
(Reykjavík: Örn og Örlygur 1986), bls. 51–52; sbr. Hjörleifur Stefánsson o.fl.,
Kvosin, bls. 159–161.
12 Sjá Guðmundur Karlsson, Í björtu báli (Reykjavík: Ægisútgáfan 1963), einkum
kort um brunatjón bls. 201; sbr. Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur. Bærinn
vaknar. 1870–1940 I (Reykjavík: Iðunn 1991), bls. 351 og 362–363.
13 Morgunblaðið 7. júní 1915, bls. 1.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 12