Saga - 2012, Blaðsíða 201
Páll Björnsson, JÓN FORSETI ALLUR? TÁKNMYNDIR ÞJÓÐHETJU
FRÁ ANDLÁTI TIL SAMTÍÐAR. Sögufélag. Reykjavík 2011. 321 bls.
Myndir, töflur og nafnaskrá.
Páll Björnsson hefur skrifað merka bók um minningu, arfleifð og tákn-
myndir Jóns Sigurðssonar. Efni hennar er með þeim hætti að sjálf er hún
hluti af því efni sem Páll fæst við. Í endurnýjaðri útgáfu bókarinnar, eftir
kannski fimm ár, þar sem Páll myndi einnig greina 200 ára afmælisár Jóns
Sigurðssonar, hlyti bók hans sjálfs og viðtökur hennar að vera viðfangsefni
ásamt öðrum ritum, hátíðahöldum og tilstandi. Þótt bókin sé unnin af fullri
virðingu fyrir viðfangsefninu má líta á hana sem þátt í afhelgun Jóns og
hversdagsvæðingu. Þannig er hún líka vekjandi og inspírerandi svo að ég
hef látið leiðast út fyrir hana í því sem hér fer á eftir, spinn út frá henni
þræði og tillögur um frekari rannsóknir og sjónarhorn. Ég tel það bókinni
til tekna fremur en hitt — hún vísar út fyrir sig en er ekki lokaður heimur.
Páll hefur af mikilli elju, nákvæmni og smekkvísi — og með aðstoð
góðra manna — farið í gegnum og greint dagblöð og tímarit síðustu
hundrað ára, og rúmlega það, en þau eru „mikilvægasti heimildaflokkur-
inn“ að hans eigin sögn (bls. 250). Umfjöllunin fylgir síðan tímaröð en með
ákveðinni efnis- og þemaflokkun. Langítarlegast er fjallað um tímann frá
andláti Jóns og Ingibjargar og fram um 1920. Mikill fengur er að þessum
hluta þar sem því er lýst hvernig persónuleg minning einstaklinga um -
breytist í sameiginlega minningu, sem tekist er á um en er þó oftar sam-
einingartákn og gegnir margvíslegu hlutverki í þjóðlífi og menningu.
Seinni tímarnir verða ekki eins heildstæðir og kraftmiklir hjá Páli, einkum
tengingarnar við stjórnmál á seinni áratugum þar sem stefið er þetta: „Jón
hefur oftsinnis verið gerður að þátttakanda í helstu pólitísku deilumálum
á Íslandi, allt frá því snemma á 20. öld …“ (bls. 216). Síðan eru nefnd ýmis
dæmi um þetta, en ekki er mikið lagt upp úr því að draga heildarlínur. Um
þær vakna spurningar: Er Jón kallaður til vitnis þegar mikið liggur við eða
jafnt í hversdagslegum málum? Er kallað á Jón þegar þjóðernið er í húfi eða
jafnt í öllum málaflokkum? Hefur dregið úr þessum vísunum í Jón eða
hald ast þær við? Páll gefur vísbendingar um þetta og dregur þá almennu
ályktun að ímynd Jóns Sigurðssonar hafi verið „fjölnota“ (bls. 231).
R I TDÓMAR
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 201