Saga - 2012, Blaðsíða 169
standa vörð um þjóðina og freista þess að binda enda á óréttláta
stjórnunarhætti Breta. Fyrir marga Íraka markar uppreisnin upphaf
írakskrar þjóðernishyggju. Þjóðin varð til í þessari baráttu. Og í
huga hennar varð vopnuð uppreisn gegn hernámsliðum áhrifa-
mesta birtingarmynd föðurlandsástar.
Uppreisnin 1920 hefur verið rauður þráður í öllum skólabókum
Íraka, sérstaklega eftir 1958. Hún hefur gegnt svipuðu hlutverki og
Dinshaway í Egyptalandi. Þar er þessari uppreisn lýst sem hetju-
legri baráttu og besta dæmið um írakska þjóðernishyggju. Þessi
reynsla hefur að einhverju leyti orðið þess valdandi að Írakar hafa
litið upp til herskárra leiðtoga. Og eins og bresku sagnfræðingarnir
Charles Tripp og Toby Dodge hafa haldið fram þá hefur atburður-
inn og minningin um hann einnig leitt til þess að ofbeldi hefur
gjarnan einkennt stjórnmál í Írak.9 Í hugum Íraka eru þannig sterk
tengsl á milli ofbeldis og réttlætis.
Þennan þátt í þjóðernishyggju Íraka vanmátu Bandaríkjamenn
mjög þegar þeir undirbjuggu innrás sína í Írak árið 2003. Arkitektar
innrásarinnar töldu að ágæti eigin hugmynda, til dæmis sú að koma
á lýðræði í kjölfar hernaðarlegrar innrásar, væri líkleg til árangurs.
Með öðrum orðum, þeirra eigin hugmyndir og orðræða væri mikil-
vægari en uppsöfnuð reynsla 25 milljóna Íraka og hugsanleg við -
brögð þeirra við innrás í eigið land. Fræðimenn bentu margsinnis,
bæði í ræðu og riti, á nauðsyn þess að taka tillit til sögulegra stað -
reynda og mikilvægis írakskrar þjóðernishyggju, en þess í stað
ákváðu skipuleggjendur árásarinnar að hlusta frekar á tiltekna
írakska útlaga, sína menn, sem sannfærðu Bandaríkjamenn um að
Írakar kæmu til með að fagna innrásaraðilunum með blómum og
súkkulaði.
Á sama tíma vanmátu þeir einnig afleiðingar stríðsins milli Írans
og Íraks (1980–88), Persaflóastríðsins hins fyrra (1990–91) og þeirra
efnahagsþvingana sem fylgdu í kjölfarið. Það voru sérstaklega hin-
ar óvenju harkalegu efnahagsþvinganir, framfylgt af Sameinuðu
þjóðunum, sem höfðu lamandi áhrif á allar stofnanir landsins. Eins
og frægt er, er áætlað að um 200–800 þúsund Írakar hafi látist af
völdum efnahagsþvingananna.10 Þó svo að Sameinuðu þjóðirnar
dúfan og hlassið 169
9 Þessu er haldið fram í bók Dodge, Inventing Iraq, og líka í bók Charles Tripp,
A History of Iraq (Cambridge: Cambridge University Press 2002).
10 Besta heimild um þetta efni er nýleg bók heimspekingsins Joy Gordon, The
Invisible War. The United States and Iraq Sanctions (Cambridge: Harvard
University Press 2010).
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 169