Saga - 2012, Blaðsíða 187
Í ritgerðinni leikur skiptingin í einka- og almannasvið allstórt hlutverk,
m.a. sú niðurstaða margra fræðimanna að staða kvenna hafi þrengst með
þessari skiptingu fyrir tilstuðlan heimilishugmyndafræðinnar. Margir líta
jafnvel svo á að meginhluti kvenna hafi a.m.k. orðið að tímabundnum
fórnar lömbum þeirrar sögulegu framvindu sem tengja má við upphaf iðn -
væðingar — í breiðri merkingu þess hugtaks. Höfundur bendir síðan á að í
togstreitunni milli heimilishugmyndafræðinnar og hinnar nýju kvenfrels-
isorðræðu hafi orðið til nýr sögulegur veruleiki, samfélag þar sem mögu-
leikar kvenna voru auknir, þar sem konur fengu smátt og smátt aðgang að
almannasviðinu. Með þessu snýst hún á sveif með ýmsum erlendum sagn -
fræðingum, sem hafa einmitt litið svo á að heimilishugmyndafræðin hafi
búið til það eldsneyti eða kallað fram þá andstöðu sem þurfti til að knýja
fram breytingar.
Erla Hulda sýnir konur jafnframt sem virka gerendur á ofanverðri 19.
öld en ekki aðeins sem fórnarlömb hinnar sögulegu framvindu. Þannig tekst
henni að láta ólíkar og ósamstæðar frásagnir takast á, keppa sín í milli. Hún
telur að átökin milli heimilishugmyndafræðinnar og kvenfrelsishugmynda -
fræðinnar og hinar mismunandi orðræður hafi rofið „samfelluna og kyrr -
stöðu samfélagsins“ og þannig hafi „rými opnast fyrir breytingar“ (bls. 298).
Á öðrum stað segir hún að „kvennaskólarnir, kvenfélögin og róttækir kven-
frelsissinnar“ hafi smátt og smátt byggt upp sjálfstraust hjá stúlkum og kon-
um (bls. 332). Líklega má halda því fram að í þessu birtist mikilvægasta
framlag rannsóknarinnar, að nýtt félagslegt rými og nýjar tegundir um -
ræðu vettvangs hafi skapað jarðveg fyrir nútímakonuna.
Nútíminn og nútímakonan
Tímabil þessarar ritgerðar, síðari hluti 19. aldar, var viðburðaríkt hérlendis
að því leyti að gamla landbúnaðarsamfélagið var komið að ákveðnum endi-
mörkum. Sumir fræðimenn tala jafnvel um að það hafi staðið á krossgötum
kringum 1880, þar sem meðalfjölskyldan hafði náð hámarksstærð, land -
þrengsli voru orðin mikil, heiðarbýlin, sem höfðu eflst fram til 1860, fóru að
láta undan síga og aðrar undankomuleiðir virtust aðeins vera tvær, slétt-
urnar í Vesturheimi og sjávarsíðan á Íslandi. Hið nýja nútímalega samfélag
var byrjað að skjóta rótum, t.d. með breyttum lífsháttum hinna efnameiri í
helstu kaupstöðum landsins og fjölmörgum nýjum tækifærum fyrir sífellt
fleiri karla á sviði stjórnmála, menntunar og frjálsra félagasamtaka, svo fátt
eitt sé nefnt.
En hvenær hófst nútíminn á Íslandi? Þeir sagnfræðingar eru jafnvel til
sem telja að hann hafi í raun ekki gengið fyllilega í garð fyrr en með hernámi
landsins árið 1940. Flestir vilja þó tengja innreið hans við vélvæðinguna í
upphafi 20. aldar, þ.e.a.s. um það leyti sem þessari ritgerð lýkur. Var hug-
myndin um „nútímans konu“ jafnvel komin fram á undan nútímanum sjálf-
um? Hver er þessi nútími sem rætt er um í ritgerðinni frá ýmsum hliðum?
andmæli 187
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 187