Saga - 2012, Blaðsíða 170
réttlættu þessar viðamiklu aðgerðir til þess að koma í veg fyrir fram-
leiðslu gjöreyðingarvopna og stemma jafnframt stigu við hernaðar-
brölti Saddam Husseins, þá líta Írakar á þvinganirnar sem stríð á
hendur sér og eiginlegt þjóðarmorð. Efnahagsþvinganirnar gerðu
það að verkum að Írakar áttu mjög erfitt með að treysta alþjóðleg-
um stofnunum og einnig fögrum loforðum Bandaríkjamanna um
frelsi og lýðræði, þar sem þeir höfðu sýnt Írökum fyrirlitningu
nokkrum mánuðum áður og virtust kæra sig kollótta um líf þeirra
og velferð.
Þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak í mars 2003 fylgdu
hástemmdar og háfleygar yfirlýsingar í kjölfarið. Til dæmis lýsti
Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, því yfir á
blaðamannafundi í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, þann 9.
apríl 2003, að Bandaríkjamenn væru komnir til að frelsa Íraka og
vinna með frjálsum Írökum að uppbyggingu eigin lands. Eins og
reynsla síðustu ára sýnir, hafa margir Írakar barist hart gegn her-
námi Bandaríkjanna. Aðgerðir Bandaríkjamanna voru ekki taldar
miða að því að auka sjálfstæði Íraka heldur fremur að auðvelda
Bandaríkjamönnum að koma sínum mönnum að, þ.e. sínum Írök-
um, þeim sem væru líklegastir til að standa vörð um hagsmuni
Bandaríkjanna við Persaflóa.
Ein helsta ástæða þess að hernám Bandaríkjanna hefur gengið
svo illa, og Bandaríkjamenn ekki fyllilega náð að tryggja frið og
stöðugleika í Írak, eru þau viðhorf sem þeir höfðu til samfélags
Íraka og sá grunni skilningur sem þeir höfðu á sögu þeirra. Rétt eins
og Bretar, eftir heimsstyrjöldina fyrri, vanmátu þeir þær stofnanir
sem fyrir voru í samfélaginu og lögðu allt kapp á að koma á nýjum.
Bandaríkjamenn kappkostuðu að koma sínum mönnum að og veita
þeim nýjustu valdatækin sem til voru. Viðnámi Íraka mættu þeir
með ofbeldi í von um að öðlast með því virðingu þeirra. En því oft-
ar sem þeir mættu hörðu með hörðu, því erfiðara áttu þeir með að
vinna Íraka á sitt band. Þeir helltu olíu á eldinn með því að auka
þátt bandaríska hersins og gera hann sýnilegri. En vera bandaríska
hersins særði þjóðarstolt Íraka. Hún minnti þá á óréttlæti sögunnar
— að enn einu sinni var stórveldi komið til að skipta sér af innan-
ríkismálum Íraka. Söguvitund Íraka hefur mótast af stjórnmálasögu
landsins sem hefur einkennst af ofbeldi, erlendri íhlutun og einræði.
Það hefur sjaldan verið mikið ráðrúm fyrir Íraka að þróa stofnanir
eða pólitískar hugmyndir sínar nema í beinum tengslum við sjálft
ríkisvaldið. Írakar hafa verið háðir ríkinu alla tíð og einræðisherrar
magnús þorkell bernharðsson170
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 170