Saga - 2012, Blaðsíða 186
hverju konur sátu eftir á tímum framgangs karla, framlag til skilnings á því
hvernig ný viðhorf náðu að skjóta rótum og hvernig þau síðar, þ.e. á 20. öld,
leiddu til breytinga á samfélaginu í anda aukins jafnréttis kynjanna. Þessi
bók varpar þannig skýru ljósi á forsögu hinnar skipulögðu kvenréttinda-
baráttu á liðinni öld sem við þekkjum úr rannsóknum ýmissa fræðimanna,
aðallega kvenna.
Þessi doktorsritgerð er að sjálfsögðu aðeins saga hóps kvenna sem varð
áberandi í tilraunum til að skilgreina og endurskilgreina kvenleikann.
Ritgerðin er fyrst og fremst orðræðugreining, eins og áður sagði, en á bak
við orðin standa einstaklingar. Hér koma tilteknar konur meira við sögu en
aðrar því að á vissan hátt er þessi ritgerð saga ákveðinna forystukvenna sem
við þekkjum úr öðrum heimildum og rannsóknum. Þannig kemur t.a.m.
nafn Bríetar Bjarnhéðinsdóttur oftar fyrir en nöfn annarra. Þessi ritgerð
minnir á hvert við erum komin, hvernig rannsóknir á stöðu kynjanna hafa
þróast á liðnum árum. Í því sambandi má minna á að það eru aðeins örfáir
áratugir síðan Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur hóf að kenna sér-
stök námskeið um sögu kvenna við Háskóla Íslands og lagði með þeim
mikil vægan grunn að því sem síðan hefur gerst á sviði kynjasögu.
Kvenleikar, þolendur og gerendur
Kvenleiki (eða réttara sagt kvenleikar) er eitt af lykilhugtökunum í rit-
gerðinni. Áhugavert er hvernig höfundur vinnur með andmyndir eða
ómyndir í þeim textum sem hún greinir. Með greiningunni dregur hún fram
það sem hún kallar styðjandi kvenleika og úrhraks-kvenleika. Hún leggur
áherslu á að konur hafi ekki aðeins verið fórnarlömb, þolendur eða óvirkir
áhorfendur í hagnýtingu þessara ímynda heldur einnig tekið virkan þátt í
átökum um notkun þeirra. Í ritgerðinni leika konurnar sem ögruðu hinum
styðjandi kvenleika, heimilishugmyndafræðinni svokölluðu, að sjálfsögðu
stærsta hlutverkið, þ.e.a.s. ómyndirnar eða úrhrökin. Með þessari nálgun fet-
ar höfundur í fótspor þeirra fræðimanna, t.a.m. George L. Mosse, sem hafa
notað hugtökin „öðrun“ og „jöðrun“ sem greiningartæki, t.d. í rannsóknum
á karlmennsku og kvenleika.
Öðrum þræði er þessi ritgerð mannréttindasaga, greining á þeirri hug-
mynd að kona geti verið fullgildur einstaklingur í samfélagi manna.
Niðurstöður höfundar koma vel fram í þeim orðum hennar að kvennaskól-
arnir hafi ekki aðeins verið „mikilvægar menntastofnanir þar sem stúlkur
lærðu að sauma föt, skrifa, reikna eða tala ensku og dönsku“, heldur hafi
þeir einnig verið „mikilvægur vettvangur nýrra og gamalla viðhorfa,
skurðpunktur þar sem mættust hugmyndir um hefðbundið samfélagshlut-
verk kvenna og nýjar hugmyndir um frelsi og möguleika“ (bls. 228). Þessar
niðurstöður tekst höfundi að rökstyðja vel með heimildum frá kvenna-
skólastúlkunum sjálfum.
andmæli186
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 186