Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 130
D ó m a r u m b æ k u r
130 TMM 2015 · 1
ævintýrum. Frægastar eru prins-
essurnar Þyrnirós og Mjallhvít sem röt-
uðu inn í Kinder- und Hausmärchen
Grimmsbræðra eftir langa vegferð um
ævintýrasjóði margra menningarsamfé-
laga. Báðum er þeim haldið sofandi og
þær eru í raun milli lífs og dauða eða lif-
andi dauðar. Þannig eru þær geymdar
fyrir útvalda aðdáendur. Þetta minni
birtist í mörgum myndum í heimsbók-
menntunum. Bróðir Róbert segir í
Tristrams sögu frá því að Tristram lætur
gera styttu af Ísold eftir að hann hefur
verið rekinn í útlegð hennar vegna.
Þessa styttu geymir hann í afhýsi þar
sem hann elskar hana og faðmar og það
sama hafði Pygmalion myndhöggvari
frá Kýpur áður gert að sögn Óvíds.
Honum tókst að búa til höggmynd af
svo fagurri konu að hann varð ástfang-
inn af henni. Ást hans á myndinni var
svo heit að Afródíta sá aumur á honum
og gaf styttunni líf. Löngu seinna notaði
Georg Bernhard Shaw tilbrigði við goð-
söguna í frásögn sinni af blómasölu-
stúlkunni Elizu Doolittle sem Henry
Higgins breytti í hefðarkonu sem talaði
yfirstéttarensku. Góð er lifandi feg-
urðar dís en betri er þó í sögunum sú
meðvitundarlausa því þá getur aðdá-
andinn horft á hana, tilbeðið hana og
gert hana að blæti vegna þess að hún er
ómetanleg. Aðdáandi og handhafi
stúlkunnar getur líka túlkað hana eins
og honum sýnist og þetta gerir Dímon
konungur í Tímakistunni. Hann notar
tímann eins og verkfæri til að móta
dóttur sína, reynslu hennar og þroska,
hann ákveður hvaða tíma hún fær.
Vald
Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason
er ákaflega þétt ofinn texti, fullur af vís-
unum, heimspeki og gagnrýni. Herkon-
ungurinn og valdsmaðurinn Dímon
ákveður í sorginni eftir dauða konu
sinnar og ástinni á dótturinni að (mis)
nota vald sitt til að koma í veg fyrir
frekari þjáningar sínar og sinna. Hann
setur af stað atburðarás sem er ætlað að
grípa fram í gang náttúrunnar og gera
uppreisn gegn lögmálum hennar. Það
kann ekki góðri lukku að stýra. Fjöl-
margar goðsögur fjalla um ólánið sem
af því stafar ef menn gera sig seka um
ofmetnað (gr. hybris) og raska jafnvægi
náttúrunnar. Meira að segja guðirnir
geta aðeins fiktað tímabundið við nátt-
úrulögmálin, regluna verður alltaf að
endurreisa.
Í goðsögum er það heldur ekki bless-
un heldur bölvun að lifa lengur en aðrir
menn og skemmst að minnast aumingja
Starkaðar sem klemmdist milli tveggja
guða, Óðins og Þórs, sem lögðu á hann
að lifa í 300 ár, lífi sem einkenndist af
þversögnum, þjáningum og einmana-
leika. Í ævintýrum og þjóðsögum er það
heldur ekki gæfumerki að sjá það sem
öðrum er hulið eða skilja dýramál. Það
síðast nefnda gat verið mjög óþægilegt
og væru sögupersónur heppnar var þessi
eiginleiki tekinn frá þeim þegar þær
voru búnar að leysa þrautirnar.
Dímon misnotar vald sitt og gerir sig
jafnan guðunum þegar hann stöðvar
tíma Hrafntinnu, dóttur sinnar. Eins og
æsirnir sem fengu jötun til að byggja
borgarmúrinn umhverfis Ásgarð, fær
hann yfirnáttúrulegar verur til að vinna
fyrir sig hið óvinnandi verk og heitir
þeim stórkostlegum launum í staðinn.
Hann gengur síðan á bak orða sinna,
breytir reglunum og lætur drepa dverg-
ana. „Ertu að segja að konung skorti
VIT?“ spyr Exel, aðalráðgjafi Dímons,
Þórdísi fóstru Hrafntinnu. (94) Og hún
svarar ekki. Engum leyfist að gagnrýna
hann. Hann skortir ekki vit heldur sið-
ferði og þar af leiðandi dómgreind. Svik
hans eru „drottinssvik“. Upphaflega
þýðir orðið svik gegn konunginum í tví-