Tímarit Máls og menningar - 01.10.2016, Blaðsíða 64
64 TMM 2016 · 3
H va ð e r í s l e n s k u r r i t h ö f u n d u r ?
úr fjölmennum her Þjóðverja sem voru framarlega í byltingarbaráttunni og
svo virðist sem Albert hafi tekið þátt í mörgum uppþotum þennan vetur.
Mikið hafði gengið á í Bæjaralandi sem lýsti yfir sjálfstæði fljótlega eftir
stríðslok, og í byrjun apríl 1919 var sett á stofn ráðstjórn í München. Þangað
flúðu margir uppreisnarmenn annars staðar af á landinu og því var það að
þegar Albert Daudistel tók sæti í ráðstjórninni varð hann „kommissar fyrir
pólitíska flóttamenn og erlenda byltingarmenn“, sá þeim meðal annars fyrir
húsaskjóli og skotsilfri. Hann hefur verið orðinn þekktur baráttumaður á
þessum tíma, því annars hefði honum varla verið boðið sæti í stjórninni,
ungum manninum. Raunar átti hann sæti í ráðstjórninni síðari sem svo var
kölluð, en hún var sett á stofn undir forystu kommúnista um miðjan apríl
eftir að valdaránstilraun hafði verið barin niður. Anarkistar og rithöfundar
voru fyrirferðarmeiri í fyrri ráðstjórninni.3
En ráðstjórnin lifði ekki nema rétt tvær vikur eftir þetta. Hvítliðar og
stjórnarhermenn sátu um borgina og tóku hana eftir hörð og blóðug átök.
Albert Daudistel var handtekinn og dæmdur í sex ára fangelsi. Og þar byrj-
aði hann að skrifa, í fyrstu smásögur í blöð og tímarit, sumar ævintýralegar
og gamansamar og sóttu efni sitt í flækingsár hans. Safn þeirra kom út á
bók árið 1926 og nefndist Eine schön missglückte Weltreise. Reisebericht eines
blinden Passagiers, og mætti þýða „Laglega mislukkuð heimsreisa. Ferðasaga
laumufarþega“. En hann skrifaði líka skáldsögur og er frægust þeirra Das
Opfer eða Fórnarlambið (1925) sem var þýdd á nokkur tungumál og síðast
endurútgefin í Þýskalandi 1981; hana má reyndar lesa alla á netinu og hún
er sú eina af bókum hans sem ég hef gluggað í. Hann nýtir sem fyrr þætti úr
ævi sinni, fyrsti hlutinn segir þannig frá flækingstíma á Ítalíu, annar hlutinn
frá upphafi styrjaldarinnar og hefst á orðunum „Heimurinn logaði í þjóð-
rembuvímu. Prelátar hringdu inn fárviðrið. Verksmiðjurnar tæmdust.“ 4 Í
þriðja hlutanum og þeim fjórða og síðasta verður bókin æ meira að pólitískri
baráttusögu, sagt er frá byltingartilraununum strax eftir stríð sem aðalper-
sónan, Heinrich, tekur ástríðufullan þátt í og lýkur sögunni á því að hann
er tekinn af lífi. Sagan er hröð og bein, án mikilla tilþrifa í stíl en samtölin
verða stundum stirðleg. Áhrifamest er hún í frásögnum af styrjöldinni og
hörmulegum aðstæðum hermannanna.
Eftir að Albert var látinn laus úr fangelsi fluttist hann til Berlínar og hélt
áfram að skrifa í blöð og hefur sjálfur lýst því í grein hve mikið basl það var
að reyna að draga fram lífið með slíkri lausamennsku. Hann taldi sig iðu-
lega hafa verið hlunnfarinn með höfundarlaun og þá ekki síður af pólitískum
samherjum sem þóttust mega nota skrif hans af hugsjónaástæðum. Árið
1928 gekk hann í félag byltingarsinnaðra öreigahöfunda, sem stóð kommún-
istaflokknum nærri, en var rekinn úr því tveim árum síðar. Um það leyti
skildi hann við fyrri konu sína, en Bo Larris býr ekki yfir neinum upp-
lýsingum um það hjónaband.
Bo Larris telur Albert hafa kynnst og kvænst leikkonunni Edith árið 1930,