Tímarit Máls og menningar - 01.10.2016, Blaðsíða 96
96 TMM 2016 · 3
H va ð e r í s l e n s k u r r i t h ö f u n d u r ?
og ekkert hafi í skorist. Svo birtist hjúkrunarkonan, móðirin fer í sturtu og
fær nudd og bóndinn fylgir Sóleyju niður að bakkanum á ánni sem rennur
út eftir miðjum dalnum.
Síðla dags, þegar þau sitja við eldhúsborðið og skræla epli, kemur sú gamla
skjögrandi inn í eldhúsið eftir að hafa vaknað upp af löngum hádegisblundi.
Hún heldur á umslagi, þrýstir því að brjósti sér. Hún dokar við. Bóndinn rís
á fætur og gengur í átt til hennar.
„Er allt í lagi með þig, mamma?“ spyr hann.
„Alexandra kemur í dag,“ segir hún og er greinilega spennt.
Bóndinn er að því kominn að leiðrétta móður sína, enda eru liðin tíu ár
síðan Alexandra var borin til grafar, en móðir hans er fyrri til og afhendir
honum bréfið.
„Ég er svo hrædd um að ég missi af henni; kannski verð ég sofandi þegar
hún kemur. Ég vil að þú fáir henni þetta bréf.“
Hún flissar eins og skólastelpa. Bóndinn tekur við bréfinu. Utan á
umslaginu stendur skrifað, með kræklóttum stöfum: Til hennar Alexöndru
minnar. Móðirin kinkar kolli einu sinni enn, svo gengur hún til stofu og sest
í stólinn sinn. Feðginin horfast undrandi í augu.
„Hver á að fá þetta bréf?“ spyr Sóley, en hún fær ekkert svar.
Bóndinn lítur aftur á umslagið, snýr því milli fingra sér, réttir dóttur sinni
það að lokum.
„Taktu það. Hér eru væntanlega svörin við spurningunum þínum.“
Hann gengur á dyr, muldrar eitthvað um að hann þurfi að laga girðinguna
uppi í hlíð áður en hann fari í fjósið, svo fer hann í vinnugallann og stígvélin.
Hann tekur til vírtöng og gaddavír í skúrnum, baksar svo af stað upp hlíðina.
Þegar ég var lítill drengur, benti mamma mér á þúfutittling, sem sat á þúfu
líkt og hann sæti ofan á geirvörtu sjálfrar Móður náttúru. Hún sagði mér
að fuglinn stæði oft þarna og stundum dritaði hann og þá safnaðist upp
áburður sem myndaði smám saman stóran moldarhaug. Þannig yrðu fjöllin
til, sagði hún og ég trúði hverju orði. Nú veit ég að fjöllin verða ekki til með
þessum hætti, en ég hef ekki enn vikið frá mér tilhugsuninni. Sum ævintýri
eru svo falleg að maður kýs að trúa þeim. Halló, lóan mín yndisleg! Vertu
ekki hrædd. Reynir að lokka mig burt frá hreiðrinu, læst vera með brotinn
væng, dregur hann með jörðinni og syngur þinn veiklulega söng, líkt og ég
sé váboði. Það þýðir ekkert að vera með þessi látalæti við mig, ég veit vel að
hreiðrið þitt er í seilingarfjarlægð. En þú mátt vita að ég yrði síðastur manna
til þess að skaða þig eða ungana þína. Þegar ég heyri sönginn þinn í vetrar-
lok, veit ég að vorið er í nánd. Þá hlýnar mér um hjartarætur. Og á haustin,
þegar þú hverfur á braut – þá hefst sú langa bið.