Tímarit Máls og menningar - 01.10.2016, Blaðsíða 92
92 TMM 2016 · 3
H va ð e r í s l e n s k u r r i t h ö f u n d u r ?
hún hafði haft kjark til þess að yfirgefa nokkru áður. Já, sumir verða leik-
soppar örlaganna. En kannski voru ekki bara líkamlegar ástríður í spilinu,
heldur einnig ást. Því faðir minn leit til með okkur um árabil, þótt ég hafi
aldrei litið hann augum, hvað þá að ég hafi kynnst honum persónulega. Ég
var reyndar viðstaddur útförina, hitti hálfsystkini mín við það tækifæri
– prýðisfólk – en ég leit á þau sem ókunnugar manneskjur. Sjáðu, þarna
kemur steindepill og smellir með stélinu sínu, eins og hann sé að slá saman
tveimur steinvölum: tst, tst, en það var ég sem kom fyrstur út á þessa verönd,
hef verið hér alla mína ævi. Slakaðu á, litli minn! Það er engin hætta á ferð!
Oflátungurinn er skelfingu lostinn. Hann er á varðbergi, reiðbúinn að gera
félögum sínum viðvart ef hætta reynist vera á ferðum. Sérðu grenitrén þarna
fyrir handan? Ef það situr fugl alveg efst í hæsta trénu, þá er það örugglega
steindepillinn. Hann hefur búið sér hreiður við gömlu steinhleðslurnar sem
voru að hruni komnar þegar ég var drengur.
Dyrnar opnast og ung kona með úfið hár gengur út. Hún heldur með báðum
höndum um kaffibolla og tekur sér stöðu við hlið bónda.
„Góðan daginn, pabbi minn. Ertu aftur farinn að tala við fuglana?“
„Sko, nú fældirðu hana burt.“
„Hverja?“
„Maríuerluna! Hún heilsar mér á hverjum morgni. Hún er vinkona mín.
Svafstu vel?“
„Ég sef alltaf vel í sveitinni.“
„Þið eruð alltaf velkomnar hingað.“
„Ef Sóley mætti ráða, værum við hér ekki bara allar helgar heldur líka á
virkum dögum.“
„Sefur hún?“
„Eins og steinn.“
Bóndinn kinkar kolli ánægður. Dóttir hans sötrar kaffið.
„Hvernig hefur hún mamma þín það?“ spyr bóndinn.
Hann horfir í átt að grenitrjánum.
„Æ, þú veist hvernig hún er: alltaf að stússast eitthvað. Hvenær fer amma
á fætur?“
„Amma þín er ekkert unglamb lengur. Hún sefur til tíu. Það bregst ekki.“
„Og hvenær kemur hjúkrunarkonan?“
„Klukkan ellefu. Það bregst reyndar stundum.“
Unga konan hallar sér upp að bónda. Hann dregur köflóttan klút úr vas-
anum, snýtir sér í hann.
„Hvernig líður þér, pabbi?“
„Ekki hafa áhyggjur af mér. Fuglarnir passa mig.“
„Bráðum verða þeir farnir að verpa á kollinn á þér, það er ég viss um.“
Bóndinn brosir og stingur aftur á sig vasaklútnum.